Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reiddist því að ómaklega væri vegið að Elizu

Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti segir að sú tíð sé hugsanlega liðin að forseti fái ekki mótframboð, líkt og gilti um forseta framan af lýðveldissögunni. Hann segist hafa verið bjartsýnn á árangur í kosningunum og ekki hafa talið að stuðningur sem hann naut á kjörtímabilinu myndi hverfa á svipstundu í kosningum. Guðni viðurkennir að hafa reiðst í kosningabaráttunni, þegar vegið var ómaklega að honum og þó sérstaklega þegar vegið var ómaklega að Elizu Reid, eiginkonu hans, vegna starfa hennar.

„Ég þóttist viss um það að sá stuðningur og sú velvild og sá hlýhugur sem ég hef notið síðustu fjögur ár hyrfi ekki á svipstundu þegar drægi að forsetakjöri,“ sagði Guðni í viðtali við Sigríði Hagalín Björnsdóttur um miðnætti.

„Ég gekk til þessara kosninga bjartsýnn og kappsamur, vildi taka þær alvarlega eins og vera ber þegar kjósendum stendur til boða að nýta sinn rétt. Ég ber mikla virðingu fyrir þessum þætti embættisins að bjóða sig fram á nýjan leik.“

Liðin tíð að forseti fái ekki mótframboð

Í gær var kosið um forseta í þriðja skipti í röð. Það hefur aldrei gerst áður. Guðni er aðeins þriðji forsetinn til að fá mótframboð og sá fyrsti sem fær mótframboð eftir fyrsta kjörtímabil sitt. Hann segir að forsetaembættið þróist rétt eins og samfélagið. „Nú hygg ég að það sé mögulega liðin tíð fyrir fullt og allt að forseti fái ekki mótframboð hversu vel eða illa sem landsmönnum hefur þótt hann standa sig.“

Guðni kvaðst meira og minna sáttur við kosningabaráttuna og samskipti sín við mótframbjóðandann. Hann sagði að sumir vildu styðja frambjóðanda sinn með ráðum og dáð og misstu sig jafnvel í því, segðu eitthvað sem þeir sæju jafnvel eftir. „Þetta er líka einhvers konar öryggisventill í okkar samfélagi. Fólk á og má segja hug sinn, en mér finnst alltaf betra að menn geri það af einurð já, en ekki með fúkyrðaflaumi.“

„Sumu er best ósvarað“

Guðni játaði því að hafa reiðst í baráttunni. „Þegar mér finnst ómaklega að mér vegið, að ég tali nú ekki um þegar ómaklega er vegið að þeim sem standa manni nærri þá reiðist ég. En reiði er ekki góður förunautur. Reiði má aldrei ná tökum á manni, allra síst þeim sem gegnir þeirri stöðu sem ég hef gegnt í fjögur ár og gegni nær örugglega næstu fjögur ár. Maður þarf að sýna stillingu og kappkosta frekar að láta þá tilfinningu efla sig til frekari dáða. Svo er það stundum bara þannig að sumu er best ósvarað. Þá hugsar maður bara: þögnin og skömmin geymir þá best.“ Þar átti hann við ummæli um störf Elizu Reid eiginkonu sinnar.

Það er ekki endilega besti leiðtoginn sem lætur mikið á sér bera og leitar átaka sagði Guðni. Hann sagði að það væri ekki besti leiðtoginn sem neitaði að játa mistök og kenndi öðrum um.

Aðspurður hvað tæki við eftir næsta kjörtímabil sagði Guðni of snemmt að segja til um það. Hann stæði hins vegar við það sem hann sagði fyrir forsetakosningar 2016 að hann myndi ekki sitja lengur en tólf ár að hámarki