Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Minnast þeirra sem létust í brunanum á Bræðraborgarstíg

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Boðað hefur verið til samstöðufundar við Alþingishúsið í dag til að vekja athygli á bágri stöðu erlends verkafólks hér á landi. Eftir fundinn verður gengið að húsinu við Bræðraborgarstíg sem kviknaði í í síðustu viku. Þrír létust í eldsvoðanum.

Engar ræður verða haldnar á fundinum í dag heldur ætlar fólk að safnast saman í þögn, að sögn Wiktoríu Joönnu Ginter, eins skipuleggjenda. Fundurinn hefst klukkan tólf á hádegi við Alþingishúsið. 

Sjá einnig: Ég bað hann um að stökkva ekki

Wiktoria segir að þetta verði friðsamur fundur en ekki mótmæli. „Við ætlum að koma saman og mótmæla aðbúnaði erlends verkafólks á vinnumarkaði og líka á leigumarkaði,“ segir hún. Fjölskyldur og ástvinir þeirra sem létust í eldsvoðanum ætla að koma saman við húsið á Bræðaborgarstíg eftir fundinn og minnast þeirra sem létust og hafa boðið alla velkomna þangað, að sögn Wiktoriu.

Heyrir oft af slæmri stöðu erlends verkafólks

Wiktoria hefur búið á Íslandi í 13 ár og kveðst oft heyra af slæmri framkomu vinnuveitenda við erlent verkafólk. Síðustu sjö til átta ár hafi hún reynt að hjálpa fólki í þessari stöðu. Slæmar aðstæður verkafólks taki á sig ýmsar myndir. Sumir vinni fyrir starfsmannaleigur og búi í gámum eða óíbúðarhæfum húsum, dæmi séu um að laun fólks séu skert mikið, þá gerist það að fyrirtæki greiði erlendum starfsmönnum lágmarkslaun og taki ekki tillit til menntunar þeirra og reynslu. „Af því að stjórnendur fyrirtækjanna vita að erlent starfsfólk á síður eftir að neita vinnunni, ef það vill vinna í ákveðinni atvinnugrein.“ Þá segir hún einnig skort á því að yfirvöld grípi í taumana.

Vilja vekja athygli almennings á vandanum 

Wiktoria heldur viðburðinn í dag með þremur öðrum pólskum konum. Þeim fannst þurfa að gera eitthvað til að vekja athygli fólks á stöðunni. „Okkur finnst umræðan ekki vera næg, hvorki í fjölmiðlum né meðal almennings.“ Þær íhuga að stofna félag í kringum þessi baráttumál á næstunni.