Hvort er lífið upplifun eða endurminning?

Mynd: . / cc

Hvort er lífið upplifun eða endurminning?

28.06.2020 - 08:32

Höfundar

Halldór Armand er í sumarskapi og leitar svara við gátum lífsins í brunni argentínska skáldsins Jorge Luis Borges. Er endurminningum okkar treystandi?

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Í næstu viku kemur út ný bók eftir perúska rithöfundinn og nóbelsverðlaunahafann Mario Vargas Llosa sem nefnist Medio siglo con Borges, eða Hálf öld með Borges, og hún inniheldur skrif Vargas Llosa um argentíska höfundinn Jorge Luis Borges. Ég er ekkert stórfenglega lesinn í Borges, bara alls ekki, en ég hef alltaf tekið mjög alvarlega það sem hann segir, kannski vegna þess að hann varð blindur 55 ára gamall, og samkvæmt forn-grísku hefðinni sjá hinir blindu betur við sem höfum sjón. Bestu skáldin, þau sem búa yfir spádómsgáfu, eru blind. 

Og í tilefni af því að bók Vargas Llosa um Borges er að koma út birtist á vef spænska dagblaðsins El País gamalt viðtal frá 1981 þar sem Vargas Llosa spjallaði við Borges á heimili þess síðarnefnda í Buenos Aires. Þar vekur Vargas Llosa meðal annars máls á því hversu spartanskt heimili Borges sé, þetta sé svolítið eins og að koma heim til klausturmunks, allt mjög lágstemmt og laust við íburð. „Lúxus tel ég vera lágkúru,“ segir Borges þegar Vargas Llosa spyr hann hvort honum sé svona mikið sama um efnisleg gæði. Á heimilinu er auðvitað mikið af bókum, en engin þeirra er eftir Borges sjálfan, og engin þeirra er um hann heldur, þótt vitaskuld hafi verið skrifaðar um hann margar bækur þegar árið 1981. 

Nema hvað. Í miðju viðtalinu rifjar Vargas Llosa upp ummæli sem hann hefur eftir Borges. Þau eru svohljóðandi: „Ég hef lesið mikið, en ég hef lifað lítið.“ Vargas Llosa segir að þessi setning sé í senn fögur og nostalgísk. „Muy triste,“ svarar Borges, mjög dapurlegt. 

„Þú hljómar eins og þú sjáir eftir þessu,“ segir Vargas Llosa þá. 

„Þetta skrifaði ég þegar ég var þrjátíu ára gamall,“ svarar Borges. „Þá var ég ekki búinn að átta mig á því að lestur er líka leið til þess að lifa lífinu.“ 

„En finnið þér ekki fyrir nostalgíu til alls þess sem þér hafið ekki framkvæmt í lífi yðar fyrir sakir þess að verja svo miklum tíma í hreint vitsmunalíf?“ spyr Vargas Llosa þá. 

„Ég held ekki, nei,“ svarar Borges. „Ég trúi því að til lengri tíma þá upplifi maður allt það nauðsynlegasta og að það mikilvægasta séu ekki upplifanir, heldur hvað maður gerir við þær.“ Rithöfundarnir tveir fara ekki nánar út í þetta málefni. Eins og allar góðar véfréttir passar Borges sig á því að segja ekki of mikið.

Sumarið - tíminn þegar við gerum eitthvað annað

Nú fer í hönd tími sumarleyfanna, tími sem flestir hlakka til, besti tími ársins. Ef ég hefði eina setningu til þess að lýsa sumrinu fyrir geimveru myndi ég segja að það sé sá tími ársins þegar fólk gerir eitthvað annað en það gerir venjulega. Það sé svona þumalputtaregla. Og oftar en ekki er sumarið tími upplifana. Hvað finnst okkur um það sem Borges sagði við Vargas Llosa árið 1981? Er það rétt að það skipti ekki öllu máli hvað við upplifum, heldur aðeins það sem við gerum við þessar upplifanir? Getur verið að sumarið sem upplifun skipti engu sérstöku máli, heldur aðeins hvað við gerum við þessa upplifun? 

Þegar ég las þessi svör Borges var mér hugsað til þess þegar ég rakst einu sinni á viðtalsbók Matthíasar Jóhannessen uppi í skáp í sumarbústað. Þar var viðtal við Borges þar sem hann sagði meðal annars: „Lífið er einkennilegt, því er ekki að neita. Og ef við höldum okkur við reynsluna þá upplifum við þúsund sinnum eða milljón sinnum margvíslega reynslu á hverjum degi, en gleymum mestöllu jafnóðum. Sumt loðir þó við mann og verður partur af lífi okkar. Og sumt gleymist ekki: andlit karls eða konu, setning úr bók, tilsvar. Þó þetta sé ekkert merkilegt eða mikilvægt, getur þér bæði fundist það merkilegt og mikilvægt þegar stundir líða.“

Ég hef skrifað um þessar setningar áður á þessum vettvangi. Þær fanga það hvernig lífið breytist eftir á og er þannig að vissu leyti upplifað eftir á. Lífið er upprifjun, en upprifjun á hverju nákvæmlega? Sú spurning sem ég hefði viljað bera undir Borges þegar hann sagði að upplifanir okkar skiptu ekki öllu máli, heldur hvað við gerum við þær, er að hversu miklu leyti við ráðum því sjálf hvað við gerum við upplifanir okkar. Því hérna er ég með tvö viðtöl við kallinn, hvort frá sinni heimsálfunni, og í öðru þeirra segir hann að þetta um upplifunina, en í hinu gengst hann við því að við höfum ekki stjórn á endurminningunni. Hvernig samþættum við þetta?

Rannsóknir á fortíðinni eru draumráðningar

Ég hvet hlustendur til þess að hugsa um einhverja sterka minningu, bara það fyrsta sem kemur upp í hugann. Hvernig hefur þessi minning þróast? Mín eigin reynsla er sú að ekki bara öðlast hversdagslegir hlutir merkingu í endurminningunni, heldur breytist minningin sjálf sömuleiðis og líka afstaðan til hennar. Minningar sem ég einu sinni hugsaði til með skelfingu, varða mig nú engu, atvik sem einu sinni skiptu mig máli, skipta mig ekki lengur máli, það sem einu sinni skipti mig ekki máli, skiptir mig nú máli. Minningarnar hafa breyst og líka afstaðan til þeirra. Það virðist vera svo að það hvernig við upplifum okkar eigið líf taki sífelldum breytingum. Að reyna að skilja fortíðina, er eins og að ráða draum. Hann rennur þér úr greipum um leið og þú reynir að grípa hann.

Að vissu leyti er þetta röksemd fyrir gildi núvitundar, sem í dag er svo vinsæl. Það er að segja, það er viturlegt að reyna að njóta lífsins um leið og það fer fram, en leggja ekki alla áherslu á að fanga það einhvern veginn svo það megi rifja það upp síðar meir, vegna þess að endurminningin verður ekki á þínu valdi. Á samfélagsmiðlum hefur lengi verið vinsælt að birta gamlar myndir með myllumerkinu #tbt sem stendur fyrir throwback to, afturhvarf til. Um hávetur sér maður stundum myndir frá sólarströnd settar inn. Þær eru #tbt. Þegar ég sé slíkar myndir finnst mér gaman að velta fyrir mér hvað viðkomandi man frá því augnabliki þegar myndin var tekin. Manstu eftir akkúrat þessu augnabliki þegar þú stóðst á sólböðuðum sundlaugarbakkanum og smellt var af? Eða manstu eftir ferðinni sjálfri? Manstu eftir sandinum á ströndinni? Heitum sjónum? Einhverjum áhyggjum? Einhverri sorg eða gleði sem rammar þessa endurminningu inn? Hvers er raunverulega saknað frá þessum tíma? Til hvers er afturhvarfið? Hvað er nákvæmlega verið að rifja upp? Maður getur auðveldlega ímyndað sér það að þegar kuldinn og myrkrið kreista bæði huga og bein sé auðvelt að ylja sér við myndir frá hlýrri og bjartari tíma. En var lífið raunverulega betra þá? Er þessari endurminningu treystandi? 

Ég spyr Borges aftur, núna þegar sumarfríið byrjar, hvert er samband upplifana og minninga? Ef þú segir að meðhöndlun okkar á upplifunum skipti meira máli en þær sjálfar, áttu þá ekki við að ég geti stýrt því hvernig ég man eftir þeim, eða að minnsta kosti haft áhrif á það? Því hvernig meðhöndla ég upplifanir öðruvísi en gegnum minningar? Hvað er líf mitt annað en endurminning, eða barátta mín við hana öllu heldur? Er lífið eitthvað sem okkur ber að lifa hér og nú, í sumar, án meðvitundar um morgundaginn, eða einmitt eitthvað sem við rifjum upp, og rifjum upp miklu lengur en við upplifum?

Þetta eru spurningarnar sem ég blæs úr lófa mínum út í heitt, heitt sumarið. 

Tengdar fréttir

Pistlar

Við öðlumst visku gegn vilja okkar

Pistlar

Að þrá úr fjarlægð

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?

Pistlar

Allar manneskjur eru ólöglegar