
Forsetakosningar í Póllandi
Auk núverandi forseta Andrzej Duda eru tíu í framboði. Borgarstjóri Varsjár Rafal Trzaskowski er sá eini sem talinn er geta veitt honum einhverja samkeppni.
Pólland á sér aldalanga sögu og hefur löngum verið áhrifavaldur í sögu Evrópu. Innrás Þjóðverja í Pólland 1939 varð kveikjan að síðari heimsstyrjöldinni, að henni lokinni réðu kommúnistar ríkjum þar í landi allt til ársins 1989.
Nú er Pólland aðili að NATÓ og Evrópusambandinu. Efnahagslífið hefur vaxið og dafnað undanfarin ár en kórónuveirufaraldurinn hefur valdið miklum samdrætti í landinu.
Hægri flokkurinn Lög og réttlæti sem komst til valda árið 2015 hefur innleitt ýmsar umeildar breytingar, einkum í réttarfari landsins. Evrópusambandið hefur brugðist við þeim með afgerandi hætti.
Nái Andrzej Duda ekki meirihluta í kosningunum verður gengið aftur að kjörborðinu 12. júlí næstkomandi.