Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Er ekki á leið í stjórnmál

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Tæplega þrettán þúsund manns greiddu Guðmundi Franklín Jónssyni atkvæði sitt og kveðst hann ánægður með niðurstöðuna. Hann kveðst hafa vitað að hún yrði á þennan veg. Guðmundur kveðst ekki á leið í pólitík.

„Nei, ég hef bara alveg nóg að gera í mínu starfi,“ segir Guðmundur, aðspurður að því hvort hann ætli í stjórnmál. „Ég, sem sagt, hafði lítið að gera núna út af COVID þannig að ég hafði tíma í þetta og mér fannst að þetta væri sniðugt innlegg í umræðuna og líka að bara nýta minn lýðræðislega rétt til að bjóða mig fram vegna þess að ég vildi sjá einhvern fara á móti honum,“ segir Guðmundur, sem ætlar ekki að bjóða sig fram til forseta Íslands aftur.

Íhugaði aldrei að hætta við framboðið

Hann kveðst hafa vitað í aðdraganda kosninganna að sitjandi forseti myndi hafa betur, líkt og raunin varð. „Ég er mjög raunsær og ég vissi það alveg, það var deginum ljósara.“ Hann íhugaði þó ekki að hætta við framboðið. „Nei aldrei nokkurn tíma. Ég vildi láta fólk njóta þess að fá að kjósa. Það er þeirra réttur.“

Vonar að stefnumálin lifi áfram

Guðmundur Franklín vonar að stefnumál hans lifi áfram. „Ég er auðsjáanlega búinn að vekja upp einhverjar kenndir hjá þjóðinni og ég vona að þessi þrettán þúsund atkvæði þau sofni ekki á verðinum um auðlindirnar.“ 
Guðmundur Franklín stýrði hóteli í Danmörku áður en hann fór í forsetaframboð. Hann ætlar að dvelja á Íslandi í sumar með fjölskyldu sinni.