Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ekki á að þurfa bruna og dauðsföll til að fá viðbrögð

28.06.2020 - 13:12
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Það á ekki að þurfa eldsvoða, eins og þann sem varð við Bræðraborgarstíg á dögunum og þrjú dauðsföll, til að brugðist verði við óviðunandi aðstæðum innflytjenda á húsnæðimarkaði, segir Kjartan Páll Sveinson, íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur, og einn þeirra sem stóð að samstöðufundi á Austurvelli á hádegi.

Talið er að um 400 manns hafi komið saman á Austurvelli. Þar voru þögul mótmæli gegn bágri stöðu erlends verkafólks á vinnu- og húsnæðismarkaði hér á landi. Þrír fórust í eldsvoða á Bræðraborgarstíg á dögunum og einn er á gjörgæslu. 

Sjá einnig: Einn enn þá á gjörgæslu eftir brunann

„Það á ekki að þurfa bruna og þrjú dauðsföll til þess að við tökum viðbragð. Það eru þúsundir manna sem búa við gjörsamlega óviðunandi aðstæður  á íslenskum húsnæðismarkaði og það eru óprúttnir aðilar sem eru að notfæra sér að fólk hefur kannski ekkert um neitt annað að velja. Þessu verður að linna. Við getum ekki, sem samfélag, sætt okkur við það að þetta sé að gerast,“ sagði Kjartan Páll í viðtali við Bjarna Rúnarsson, fréttamann, í hádegisfréttum.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Sorg og reiði ríkjandi í Vesturbænum

Hann segir íbúa í Vesturbænum í áfalli yfir því að þetta hafi gerst. Bæði sé ríkjandi sorg og reiði í hverfinu vegna eldsvoðans. „Reiðin snýr að því að þetta kemur eiginlega engum á óvart. Það var búið að vara við þessu húsi oft og nú hefur það gerst sem við héldum að myndi gerast,“ segir Kjartan Páll.  

Fólk safnaðist saman í dag til að votta þeim látnu virðingu sína og eins til að sýna samstöðu með þeim sem er enn á gjörgæslu eða spítala, eru orðnir heimilislausir og búnir að missa allar eigur sínar, að sögn Kjartans Páls. 

Eftir fundinn á Austurvelli fór fólkið að brunarústunum og minntist þeirra sem létust. Slökkviliðsmenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru meðal þeirra sem mættu á fundinn.

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV