Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Draga til baka opnanir í Bandaríkjunum

28.06.2020 - 05:18
epa08504571 Dr. Anthony Fauci, Director of the National Institute for Allergy and Infectious Diseases, National Institutes of Health, testifies during a House Energy and Commerce Committee hearing on the Trump Administration's Response to the COVID-19 Pandemic, on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 23 June 2020.  EPA-EFE/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Vegna mikillar fjölgunar kórónuveirutilfella hafa yfirvöld í Arisóna, Flórída og Texas ákveðið að draga saman segl hagkerfisins að nýju. Tilfellum fjölgaði skarpt eftir að ýmis þjónusta var opnuð á nýjan leik í ríkjunum. Anthony Fauci, yfirmaður ofnæmis- og sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á föstudag að sum ríki hafi að öllum líkindum opnað hagkerfi sín of snemma. 

Í Flórída hefur tilfellum fjölgað dag frá degi síðan um miðjan mánuðinn. Á föstudag höfðu um níu þúsund smitast undanfarinn sólarhring, en í gærmorgun voru smit á einum sólarhring orðin nærri 9.600. Alls hafa rúmlega 132 þúsund tilfelli greinst í ríkinu og yfir 3.300 látið lífið af völdum COVID-19. 

Hætt við endurkomuherferð

Lokanirnar urðu til þess að varaforsetinn Mike Pence ákvað að hætta við fyrirhugaða kosningafundi í Flórída. Til stóð að auka um ríkið á rútu undir slagorðinu „The Great American Comeback tour,“ sem á íslensku gæti útlagst sem „hin stórkostlega endurkomureisa Bandaríkjanna.“

Mikil fjölgun hefur orðið í nokkrum öðrum ríkjum í sunnan- og vestanverðum Bandaríkjunum eftir að útgöngubanni var aflétt og fólk fór að flykkjast á milli ríkja á nýjan leik.

Alls eru tilfellin í Bandaríkjunum orðin fleiri en tvær og hálf milljón samkvæmt vef Johns Hopkins háskólans. Yfir 125 þúsund eru látnir af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV