Alvarlegt umferðarslys á Kjalarnesi

28.06.2020 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Lögregla og slökkvilið er með mikinn viðbúnað vegna alvarlegs umferðarslyss sem varð á Kjalarnesi nú síðdegis. Húsbíll og tvö bifhjól lentu í árekstri á Vesturlandsvegi sunnan Hvalfjarðarganga, fyrir norðan þéttbýlið á Kjalarnesi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendu marga bíla á vettvang. Lögreglan lokaði fyrir umferð um Vesturlandsveg frá Hvalfjarðargöngum að Þingvallavegi. Nú er búið að opna Hvalfjarðargöng aftur en Vesturlandsvegur er ennþá lokaður frá Hvalfjarðarvegi að Þingvallavegi. Fólk getur farið hjáleið um Kjósarskarð og Þingvallaleið. Lögregla er á vakt norðan við Hvalfjarðargöng og hafa flestir vegfarendur valið að fara um Hvalfjörð frekar en að fara í gegnum göngin.

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti sunnan megin Hvalfjarðarganga á fjórða tímanum í dag. Skömmu eftir það kom í ljós að sjúkrabíll sem var á leið af Vesturlandi til Reykjavíkur komst ekki í gegnum göngin með sjúkling. Því var þyrlan send norður fyrir göng til að sækja sjúklinginn og koma honum til Reykjavíkur.

Mynd: Lára Ómarsdóttir / RÚV

Langar raðir bíla mynduðust sitthvorum megin við slysstað. Eftir því sem næst verður komið varð slysið á veginum milli þéttbýlisins á Kjalarnesi og Hvalfjarðarganga. Vegagerðin bendir vegfarendum á að fara Þingvallarveg og Kjósarskarðsveg til að komast Hvalfjörðinn. Upphaflega var talið að göngin yrðu lokuð í langan tíma en samkvæmt nýjustu upplýsingum rétt fyrir klukkan fjögur var útlit fyrir að þau yrðu opnuð aftur innan skamms.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 16:54

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson / RÚV
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti nærri slysstað en var síðan send í að flytja sjúkling.
Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson / RÚV
Sjúkrabíll á leið á slysstað.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi