14 athugasemdir í 1.700 úttektum hjúkrunarheimila

28.06.2020 - 18:51
A patient is evacuated from the Magnolia Rehabilitation and Nursing Center in Riverside, Calif., Wednesday, April 8, 2020. More than 80 patients from a Riverside skilled nursing facility are being evacuated this morning to other healthcare locations throughout Riverside County, Calif. (AP Photo/Chris Carlson)
 Mynd: AP
Þegar heilbrigðiseftirlitið í Kaliforníu gerði úttekt á Magnolia Rehabilitation and Nursing Center hjúkrunarheimilinu vegna kórónuveirunnar þann 7. apríl sáu eftirlitsfulltrúar enga ástæðu til að gera einhverjar athugasemdir. 

Daginn eftir beið röð sjúkrabíla fyrir utan hjúkrunarheimilið til að flytja á brott alla 83 íbúana, eftir að starfsfólk neitaði að koma til vinnu vegna ótta við veiruna sem þegar var tekin að dreifa sér.

Sambærilega sögu er að segja af fjölda annarra hjúkrunarheimila í Kaliforníu. Aftur og aftur voru fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins látnir gera úttekt á getu heimilanna til að hamla útbreiðslu veirunnar og sjaldnast sáu þeir nokkra ástæðu til að gera athugasemdir, að því er fram kemur í úttekt Los Angeles Times um málið. 

Þannig var hjúkrunarheimilið Hollywood Premier Healthcare í Los Angeles sagt mæta stöðlum yfirvalda þann 30. mars. Þremur dögum seinna var búið að staðfesta þar 68 smittilfelli og kalla þurfti til þjóðvarðliða til að aðstoða starfsfólk sem réði engan vegin við aðstæður. 

14 athugasemdir í rúmlega 1.700 úttektum

Heilbrigðiseftirlitið mætti fimm sinnum á staðinn og tók út aðstæður í Kingston Healthcare Center í Bakersfield. Í öll skiptin var hjúkrunarheimilið talið mæta stöðlum. Kórónuveiran átti engu að síður eftir að smita 158 íbúa og starfsmenn og kosta 21 þeirra lífið.

LA Times segir fulltrúa heilbrigðiseftirlits Kaliforníuríkis hafa framkvæmt rúmlega 1.700 Covid-19 úttektir á tímabilinu frá því í lok mars og fram í miðjan júní. Ekki voru gerðar athugasemdir í nema 14 tilfellum.

Líkt og í mörgum öðrum ríkjum Bandaríkjanna hefur kórónuveiran komið illa niður á íbúum og starfsfólki hjúkrunarheimila. Hátt í 2.500 dauðsföll tengjast nú heimilunum og eru um 43% allra dauðsfalla af völdum kórónuveirunnar í Kaliforníu. 

Illa undir það búin að bregðast við veirunni

LA Times segir gallaðar úttektir heilbrigðiseftirlitsins aðeins nýjasta dæmið sem sýni hversu illa yfirvöld og eftirlitsiðnaðurinn hafi verið undir það búinn að bregðast hratt við veirunni.

Hjúkrunarheimili hafi til að mynda skort allan nauðsynlegan búnað til að verjast veirunni og jafnvel eftir að ljóst varð í hvað stefndi hafi eftirlitsaðilar ekki farið fram á að íbúar og starfsfólk væri skimað.

Ættingjar íbúa heimilanna segja í samtali við blaðið að þeir hafi orðið varir við greinilega vanhæfni starfsmanna til að verjast veirunni.

Talskona heilbrigðiseftirlitsins segir engu að síður reglum hafa verið mætt, en að reglurnar sem fylgja átti hafi ekki getað stöðvað útbreiðslu svo smitandi veiru.

Kurteisisheimsóknir ekki alvöru eftirlit

Patricia L. McGinnis, framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka hjúkrunarheimila í ríkinu ríkið hafa lagt áherslu á eftirlitshlutverk sitt frekar en umönnun. „Þetta voru ekki alvöru úttektir. Þetta voru frekar kurteisisheimsóknir,“ segir hún.

Hagsmunasamtökin Center for Medicare Advocacy greindu frá því fyrr í mánuðinum að af þeim rúmlega 5.700 Covid úttektum sem heilbrigðiseftirlitsstofnanir í Bandaríkjunum framkvæmdu hafi rúmur fjórðungur verið framkvæmdur í Kaliforníu. 

Líkt og í Kaliforníu voru athugasemdirnar á landsvísu fáar, ekki nema 163, eða innan við 3% af heildinni. 

Nú þegar tugir þúsunda íbúa og starfsmanna heimilanna eru látinn er trúverðugleiki úttektanna lítill. „Það er einfaldlega ekki trúlegt að ekkert hafi verið athugavert varðandi smitvarnir og eftirlit þessara heimila,“ segir Toby Edelmann sem fer fyrir stefnumótun samtakanna.
 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi