Uppruni hópsmitsins hugsanlega annar en talið var

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Uppruni hugsanlegs hópsmits, sem hefur valdið því að hundruð manns eru nú í sóttkví, kann að vera allt annar en talið var. Starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið kallað út til að komast að hinu sanna. Á meðan eru gestir úr fimm veislum sem haldnar voru síðustu helgi komnir í sóttkví. 

Knattspyrnukona í Breiðabliki fékk neikvætt sýni þegar hún kom frá Bandaríkjunum 17. júní en svo greindist hún með smit á miðvikudaginn. Tvö smit annað í ráðuneytisstarfsmanni og hitt í knattspyrnumanni hjá Stjörnunni komu svo og voru tengd henni. 

Starfsfólk kallað út til rannsókna

„Núna erum við að setja í gang mjög umfangsmikla skimun með Íslenskri erfðagreiningu. Við erum að ræsa út allt þeirra starfsfólk til að fara í stóra skimun á öllum þeim sem hafa hugsanleg tengsl við þessa þrjá aðila. Við ætlum að ná utan um það núna um helgina. Það eru ákveðnar vísbendingar um að hugsanlega sé þetta með öðrum formerkjum en við höfumn talið. Við viljum fullvissa okkur um það,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra. 

Nú er verið að skoða hvort hugsanlegt sé að knattspyrnumaðurinn sé með innanlandssmit og hafi því ekki smitast af konunni. Íslensk erfðagreining ætlar að raðgreina sýnin úr þeim og ráðuneytisstarfsmanninum til að athuga hvort kórónuveiran sé eins í þeim. 

Veislugestir fimm veislna í sóttkví

Tíu manna smitrakningateymi situr nú í turninum við Katrínartún í umfangsmikilli rakningu 

Hvað eru margir þar undir?

„Það eru mörg hundruð í sjálfu sér en eins og staðan er núna ætli það sé ekki svona rúmlega 300 sem eru í sóttkví eða á leiðinni í sóttkví.“

Þegar hefur verið greint frá knattspyrnuliðum sem þurfa að vera í sóttkví. En það eru hins vegar veislur, eins og útskriftarveislur, sem þetta fólk fór í um síðustu helgi sem tengir þau:

„Það eru fimm veislur sem að er smittenging inn í og það er fólk í sóttkví úr öllum þessum veislum.“

Allir gestirinir?

„Allir gestirnir já.“

Unnið er á fullu við sýnin til að athuga hvort fleiri séu smitaðir: 

„Starfsfólk erfðagreiningar mun vinna fram á nótt við úrvinnslu úr þeim og síðan heldur áfram á morgun. Við vonumst til þess að við höfum náð utan um þetta og að ekki verði neinar jákvæðar níðurstöður en við þurfum að vera undirbúin öllu í þessu.“

Fólk með mjög lítil tengsl skoðað eftir helgi

Svo á að ganga lengra í sýnatökunni eftir helgi og þá verða stórir hópar í kringum þessi íþróttafélög skoðaðir jafnvel þótt tengslin við þessa sem þegar hafa verið skoðaðir séu mjög lítil.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi