Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tveir þriðju hjúkrunarfræðinga sögðu já

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarfræðingar samþykktu í dag miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem felur í sér að launaliðnum í kjaradeilu þeirra við ríkið verði vísað til gerðardóms.

Þetta staðfestir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, í samtali við fréttastofu.

Atkvæðagreiðslu um tillöguna, sem hófst á miðvikudag lauk klukkan 10 í morgun. Svarhlutfall var 78,5%, en á kjörskrá eru 2.726. Já sögðu 64,3% og nei 34,8%. 0,8% tóku ekki afstöðu.

„Ég er mjög sátt. Það að tveir þriðju hlutar segi já er mjög skýr afstaða til þess sem samninganefndin hefur verið að vinna að síðustu 16 mánuði,“ segir Guðbjörg.

Hún bætir við að þó það sé aldrei ákjósanlegasta niðurstaðan að þurfa að vísa launalið í gerðardóm, þá sýni þetta að sátt ríki um þá niðurstöðu.

Með miðlunartillögunni var afstýrt verkfalli á þriðja þúsund hjúkrunarfræðinga sem átti að hefjast á mánudaginn var. Miðlunartillagan inniheldur öll þau atriði sem samkomulag náðist um við samningaborðið en ágreiningsefnum um launalið verður að hluta vísað í sérstakan gerðardóm.