Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þræðirnir sem ég næ í eru óttinn og kvíðinn“

Mynd: RUV mynd / RUV mynd

„Þræðirnir sem ég næ í eru óttinn og kvíðinn“

27.06.2020 - 10:50

Höfundar

„Við sem sluppum með skrekkinn og við veiruna eigum eflaust mörg eftir að eiga góðar minningar úr kófinu,“ segir Linda Vilhjálmsdóttir ljóðskáld sem brást við veirufaraldrinum með því að leita inn á við og yrkja ljóð í nýja bók. Bókin heitir Kyrralífsmyndir, en Linda orti ljóðin innblásin af hversdeginum hér heima og heimsókn sinni til Indlands í lok síðasta árs. 

„Ég kom heim á gamlársdag frá Indlandi eftir dásemdarlíf þar í hita og raka. Svo brast á með brjáluðu veðri, það bættust við snjóflóð fyrir vestan og loks kórónaveiran. Í mars kom svo fyrsta ljóðið sem eins konar viðbragð og einhvern veginn var það rökrétt að ég héldi áfram að yrkja um svona stemningar.  Og svo gerði maður ekkert annað en að fara í einn göngutúr á dag og fara út að kaupa í matinn,“ segir Linda Vilhjálmsdóttir um lífið það sem af er árinu.

Linda segir að sér hafi svo sem liðið mjög vel í kófinu svokallaða. „Ég vinn heima og það breyttist ekkert en mér fannst mjög þægilegt að allir aðrir væru heima líka. Fólk spyr gjarnan á Íslandi hvað maður sé að gera og rithöfundum er oft dálítið illa við þessa spurningu. Þegar svona margir þurftu að vera heima þá fannst mér fólk vera í sömu sporum og ég og þá væri ég allt í einu orðin „normal“ sem ég er eiginlega aldrei,“ segir Linda og hlær. 

loftið 
svo tært 
um þessar mundir 

að andgufa náungans 
sem kemur gangandi
 á móti mér 

kallar 
fram orðið 
loftslagsvá

Linda segist í bókinni ná sér í ýmsa þræði sem hún hefur fundið í andrúmslofti undanfarinna mánaða. „Þræðirnir sem ég næ í eru óttinn og kvíðinn, það segir sig sjálft. Ég næ í einangrunina en líka það góða við einveruna og það góða við hversdaginn. Eins og það að fara út að ganga og fylgjast með náttúrunni. Kannski tók maður miklu betur eftir öllum smáatriðum en venjulega.“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV mynd
Lindu leið vel þegar allir aðrir voru heima eins og hún í kófinu svokallaða.

En telur Linda að þessir margnefndu „fordæmalausu tímar“ breyti einhverju til frambúðar um það hvernig fólk hugsar og hagar lífii sínu?

„Það er ekkert hægt að segja það. Maður verður bara að vona,“ segir Linda. „Mér finnst allir ennþá vera miklu rólegri og sáttari við hversdaginn heldur en fólk hefur verið. Ekki þetta „hæp“ í gangi. Mér finnst að við séum enn bara í svona þriðja gír og vona að við getum haldið okkur þar. Þriðji gír er fínn sko, hann er svona næstum því hlutlaus finnst mér. Annar gír er of lítið.“

Í Víðsjá á Rás 1 var gengið með Lindu í miðbænum og hún las úr nýju bókinni Kyrralífsmyndum. Viðtalið má heyra hér að ofan en tónlistin kemur úr smiðju Anouar Brahem. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Uppreisnarljóð Lindu Vilhjálmsdóttur

Bókmenntir

Linda Vilhjálmsdóttir verðlaunuð í Póllandi

Bókmenntir

Frjáls eins og „pólitíkus sem losnar af þingi“

Bókmenntir

Frelsi Lindu Vilhjálmsdóttur