Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skjálfti af stærðinni 4 í nótt

27.06.2020 - 10:31
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Skjálftahrina úti fyrir Norðurlandi heldur áfram. Í nótt varð skjálfti rétt fyrir klukkan fimm af stærðinni 4. Skjálftinn varð  33,4 kílómetra vestsuðvestur af Grímsey.

Rúmlega 800 skjálftar hafa mælst síðustu tvo daga, en þeir hafa flestir verið minni háttar. Aðeins 5 þeirra hafa mælst yfir 3 af stærð.  Vika er síðan að  þrír stóri skjálftar urðu á Tjörnesbeltinu. Þeir fundust greinilega allt frá Langanesi suður til  Reykjavíkur.

Óvissustig enn í gildi

Almannavarnir lýstu yfir óvissustigi vegna skjáltahrinunnar og er það enn í gildi.Jarðskjálftar eru tíðir á þessum slóðum. Á Vísindavefnum segir um Tjörnesbrotabeltið:

„Ástæðan fyrir mikilli jarðskjálftavirkni nálægt Grímsey er sú að eyjan liggur rétt við Tjörnesbrotabeltið. Tjörnesbrotabeltið er annað tveggja þverbrotabelta hér á landi, en svo kallast sniðgengi eða kerfi sniðgengja sem tengja ása rekhryggja. Tjörnesbrotabeltið tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við Norðurgosbeltið en hitt þverbrotabeltið er Suðurlands-brotabeltið sem tengir Reykjanes og Austurgosbeltið.

Telja verður líklegt að þverbrotabelti hafi tengt Kolbeinseyjarhrygg við rekbelti Íslands frá því að hryggurinn myndaðist fyrir um 20 milljónum ára. Tjörnesbrotabeltið, eins og það er þekkt nú, varð til við gosbeltaflutninga fyrir sex til sjö milljónum ára, þegar eldvirkni færðist frá eldra rekbelti í Húnavatnssýslum og megineldstöðvum á Tröllaskaga yfir í Norðurgosbelti, norðan Vatnajökuls.“ segir á Vísindavefnum.

Heimildir geta einnig snarpra jarðskjálfta á þessu svæði árið 1584, 1618, 1755, 1838, 1867, 1872, 1885, 1897 og 1899. Á tuttugustu öld mældust fjórir skjálftar stærri en sex á landgrunninu úti fyrir Norðurlandi, 1910, 1936, 1963 og 1976. Sumir ollu tjóni, meðal annars Dalvíkurskjálftinn 1934 og Kópaskersskjálftinn 1976, en upptök þeirra voru mjög nálægt byggðinni.

Betri tækni gefur auknar upplýsingar um skjálftavirkni

Skjálftahrinur Tjörnesbrotabeltisins standa flestar í nokkra daga, en eftirskjálftavirkni stórra skjálfta og öflugri hrinur geta staðið yfir í nokkrar vikur. Virknin innan brotabeltisins er einnig mjög breytileg á milli ára. Kort af upptökum jarðskjálfta 1982-1985 leiddi í ljós helstu skjálftaþyrpingar brotabeltisins. Stærsti skjálftinn á þessum árum (um fimm að stærð) varð á Flateyjarmisgenginu skammt suðvestan Flateyjar. Töluverð virkni var til vesturs frá Flatey, en enginn skjálfti mældist á Húsavíkurhluta misgengisins í austanverðum Skjálfandaflóa. Fjölgun skjálftastöðva síðustu ár, ásamt næmari mælitækjum og sjálfvirkri úrvinnslu, hefur gert kleift að nema smærri skjálfta og staðsetningu þeirra nákvæmar.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV