Ljúki sóttkví þó sýnataka sé neikvæð

27.06.2020 - 11:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV fréttir
Allir þeir sem gert er að sæta 14 daga sóttkví vegna mögulegs kórónuveirusmits þurfa að ljúka sóttkví, jafnvel þó að sýnataka á tímabilinu gefi neikvæða niðurstöðu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum, sem segja mjög mikilvægt að allir þeir sem fá boð um sóttkví hlíti því undanbragðalaust og fylgi öllum fyrirmælum í hvívetna. Með því móti sé hægt að minnka líkur á að hugsanleg hópsýking leiði til víðtækari afleiðinga.

Smitrakning stendur nú yfir vegna hugsanlegrar hópsýkingar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar er vitað um tvö innanlandssmit sem talin eru tengjast knattspyrnukonu í Breiðablik, sem smitaðist í útlöndum, en hafði ekki greinst með veiruna við komuna til landsins.

Miklum fjölda fólks hefur verið skipað í sóttkví vegna málsins og segja Almannavarnir líklegt að það eigi eftir að fjölga í þeim hópi. 

Fari ekki á mannamót eftir heimkomu

Almannavarnir ítreka einnig að þeir Íslendinga sem snúa heim frá útlöndum, fari gætilega fyrst um sinn eftir heimkomu, taki ekki þátt í mannmörgum viðburðum, og takmarki samneyti við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af COVID-19, svo sem aldrað fólk.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi