Íslenskum Eurovision-aðdáendum líkar mynd Ferrells

Mynd með færslu
 Mynd: Netflix - Eurovision Song Contest: The Sto

Íslenskum Eurovision-aðdáendum líkar mynd Ferrells

27.06.2020 - 02:49

Höfundar

Svo er að sjá sem Eurovision-kvikmynd Wills Ferrells falli í nokkuð frjóan jarðveg hjá íslenskum aðdáendum Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Kvikmyndin heitir Eurovison Song Contest: The Story of Fire Saga og var frumsýnd á Netflix í kvöld. Hún rekur sögu tveggja íslenskra smástirna í tónlistarheiminum, leiknum af Ferrell og Rachel McAdams, sem fá draum sinn uppfylltan að keppa í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Myndin hefur almennt fengið heldur slæma dóma gagnrýnenda sem segja að hún sé heldur þunn, óreiðukennd og léleg sárabót fyrir söngvakeppnina sem ekki var haldin. Þó sé greinilegt að aðstandendur hennar hafi mikla ástríðu fyrir umfjöllunarefninu.

Íslenskir aðdáaendur Eurovision virðast þó margir nokkuð hrifnir. Svo er að sjá sem mörg hafi beðið frumsýningarinnar með óþreyju og því horft á myndina um leið og hún kom inn á streymisveituna.

Í lokuðum hópi á Facebook hafa farið fram umræður um myndina þar sem flest virðast nokkuð ánægð. Hún þykir fyndin og skemmtileg, gaman sé að sjá Ísland í „húmorsljósi” en jafnframt að hún sé skrýtin, svo vond að hún sé góð og jafnvel svolítið súr á köflum. Brandarar tengdir söngvakeppninni séu hreint aldeilis skotheldir.

„Nöfnin hefðu mátt vera íslenskari,“ sagði einhver og vísar þar til nafna aðalpersónanna sem heita þeim harla óíslensku nöfnum Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir.

Vera kann að kímnin í myndinni fari fyrir ofan garð og neðan hjá öðrum en hörðustu aðdáendum Eurovision. Flosi Jón Ófeigsson formaður Félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er alsæll.

Honum finnst myndin fyndin og skemmtileg og að hún nái anda keppninnar vel. Sömuleiðis segir hann að myndin sé frábær sárabót eftir frekar erfiða mánuði vitandi að Ísland hafi verið í bullandi séns að taka dolluna til Íslands!

„Hver bjóst við öðru en svona frá Will Ferrel?” spyr Flosi í samtali við fréttastofu. Hann segir að gaman hafi verið að Eurovision-stjörnurnar skemmta sér og að Húsavík verði nafli Eurovision þangað til á næsta ári.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Heimsfrumsýning breyttist í heimapartý

Kvikmyndir

Eurovision-mynd Ferrells ekki sögð upp á marga fiska

Kvikmyndir

Vilja heimsfrumsýna Eurovision-mynd Ferrells á Húsavík

Popptónlist

Eurovision-mynd Wills Ferrells frumsýnd í júní