Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hvöss og rífandi nýbylgja

Mynd með færslu
 Mynd: Laura Secord

Hvöss og rífandi nýbylgja

27.06.2020 - 11:58

Höfundar

Ending Friendships er fyrsta plata Laura Secord, sem er leidd af Alison MacNeil (Kimono). Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Laura Secord er alþjóðleg sveit, skipuð Þjóðverja, Bandaríkjamanni, Íslendingi og Kanadabúa. Kanadabúinn hefur reynar verið búsettur hér síðan 2000 eða þar um bil, Alison MacNeil, en hún setti mark sitt svo um munar á íslenskt neðanjarðarrokk á fyrsta áratugnum með hinni frábæru Kimono. Virkilega sterk sveit og plötur hennar afar stöndugar. Alison spilar hér á gítar og syngur, Julius Rothlander leikur á bassa, Erik DeLuca á gítar og Ægir Bjarnason sér um trommur. Hann gefur líka út, í gegnum Why Not? útgáfuna sína en Ægir er þekktur fyrir að starfa í World Narcosis og fleiri sveitum, auk þess að reka tónleikastaðinn R6013.

Neðanjarðarrokk

Ending Friendships inniheldur rokk, nýbylgjurokk eða neðanjarðarrokk, og dregur alveg sérstakan dám af hljóðheimi þesslags rokks frá tíunda áratugnum. Melódískt rokk en samt með surgandi gíturum. Sonic Youth, Dinosaur Jr., Superchunk og allur sá pakki. Fallegt og jafnvel viðkæmnislegt en brjáluð læti engu að síður. Lágstemmdir kaflar og sprengigos á víxl. Alison er engin nýgræðingur í bransanum og það heyrist, t.d. bara á lagasamsetningu og útsetningum. Jú, hljóðheimurinn er kunnuglegur en það er aldrei verið að apa. Spilamennska er góð og örugg og glúrnar gítarlykkjur flæða einatt um og fá mann til að sperra upp eyrun. Söngröddin er áköf út í gegn og er það enn einn plúsinn. Alison er greinilega að losa um eitt og annað og það heyrist. Ástríðan tengir mann vel við framvinduna. Sum lögin eru meira að segja furðu grípandi og eiginlega poppvæn. „I thought, I thought“ vinnur virkilega á með endurteknum hlustunum, pottþéttur slagari eiginlega með heillandi „lalalalala“ samsöng undir rest. Sama má segja um „Rock Star Suicide“ og „Crop Circles“. Fyrra lagið inniheldur nánast bítlískt viðlag og hið síðarnefnda er hálfgert „anthem“ sem endar svo í hæfandi gítarfídbakksýru. Laura Secord brúar nefnilega skemmtilega bil melódíu og myrkurs eins og ég hef verið að nefna. „This place is the answer to a question I‘m not asking“ skríður hægt áfram lengi vel áður en því er lokað með hávaða. Tekið ofan fyrir Slint, hringnum lokað.

Haganlega frágengið

Eins og sést, vel útsett og haganlega frágengin rokkplata, mótuð eftir fagurfræðinni sem einkenndi neðanjarðarrokk tíunda áratugarins en innblásin af listfengi því sem Alison og félagar búa svo sannarlega yfir. Allt í allt, vel heppnað.