Hótar skemmdarvörgum langri fangelsisvist

27.06.2020 - 03:26
President Donald Trump speaks during a roundtable discussion about "Transition to Greatness: Restoring, Rebuilding, and Renewing," at Gateway Church Dallas, Thursday, June 11, 2020, in Dallas.(AP Photo/Alex Brandon)
 Mynd: AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað forsetatilskipun sem fyrirskipar harðar refsingar yfir þeim mótmælendum sem skemma eða eyðileggja minnismerki í landinu.

Víðsvegar um Bandaríkin hafa mótmælendur fellt af stalli styttur og minnismerki um einstaklinga sem sett hafa mark sitt á söguna. Ástæður þess tengjast iðulega þrælahaldi eða nýlendukúgun.

Tilgang tilskipunarinnar segir Trump vera að vernda mikilvæg bandarísk minnismerki og að verjast hrinu ofbeldis. Hann hótar skemmdarvörgunum langri fangelsisvist.

Trump kvaðst hafa ákveðið að halda kyrru fyrir í Washington um helgina til að halda uppi lögum og reglu, fremur en að fara til New Jersey í golf.

Allmargar styttur og minnismerki í höfuðborginni hafa verið skemmd undanfarnar vikur. Í yfirlýsingu frá Hvíta Húsinu sagði að þau sem slíkt gerðu væru að vanvirða fortíðina og gildi hennar.

Jafnframt var áréttað að Trump forseti myndi aldrei samþykkja að ofbeldisfólk réði lögum og lofum, endurskrifaði söguna eða ógnaði bandarískum lífsháttum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi