Hvar erum við núna eru fjölskylduþættir fyrir ferðalanga í löngum bílferðum um Ísland. „Við byrjum alla þætti á að vita ekki hvar við erum,“ segir Jóhannes. „Við ferðumst allan hringinn í kringum Ísland og stoppum á mismunandi stöðum og heyrum í krökkum frá mismunandi landsvæðum um hvað þeim þykir skemmtilegast að gerast,“ segir Ingibjörg Fríða. „Þannig að það eru ferðaráð í þættinum, það eru þjóðsögur frá svæðinu, það eru bílaleikir, við förum alltaf yfir hvaða sundlaugar eru á hverjum stað fyrir sig og endum svo á spurningakeppni um landsvæðið.“
Þættirnir eru 11 talsins og farið á dýptina í hverju landsvæði. „Í tveimur aukaþáttum er svo farið yfir hálendið og eyjurnar í kringum Ísland. Þannig að þetta er ítarlegt,“ segir Ingibjörg. Þetta eru þættir fyrir alla fjölskylduna og mæla þau ekki með því að hlustað sé á þættina heyrnartólum. „Því þetta er smá samverustund.“
Hægt er að hlaða þáttunum niður á snjalltæki í gegnum hlaðvarpsveitur, þannig að stopult netsamband verði ekki til vandræða, en að auki er hægt að streyma þeim í útvarpsspilara RÚV og á Spotify. Allir þættirnir eru þegar aðgengilegir í helstu veitum og á RÚV.is.