Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Andrzej Duda spáð endurkjöri í Póllandi

27.06.2020 - 19:51
Andrzej Duda, forseti Póllands. - Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP
Andrzej Duda, núverandi forseta Póllands, er spáð sigri í forsetakosningum þar í landi á morgun. Búist er við að mikil flóð og kórónuveirufaraldurinn hafi áhrif á kjörsókn.

Forsetakosningarnar í Póllandi áttu að fara fram í byrjun maí en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Flest bendir til þess að Andrzej Duda verði efstur í kjörinu á morgun en flokkur hans Lög og réttlæti, hefur framfylgt íhaldssamri þjóðernisstefnu sinni síðustu fimm ár, gert róttækar breytingar á réttarkerfi landsins og talað gegn auknum mannréttindum hinsegin fólks.

Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár og frambjóðandi fjárlslyndra, er helsti keppinautur Duda. Hann nýtur stuðnings 30 prósenta Pólverja, ef marka má skoðanakannanir, og Duda 41 prósents. Því er líklegt að síðari umferð forsetakosninganna verði einvígi á milli þeirra tveggja.

Veðurstofa Póllands gaf í dag út flóðaviðvörun á hæsta stigi sem gildir næstu þrjá daga í suðausturhluta Póllands í kjölfar úrhellisrigningar. Veðrið á því eftir að setja mark sitt á kosningarnar. Á annað hundrað manns var gert að yfirgefa heimili sín í gær og í nótt og samgöngur hafa farið úr skorðum.

Bent hefur verið á að kórónuveirufaraldurinn gæti einnig haft áhrif á kjörsókn. Gerðar voru ýmsar varúðarráðstafanir á kjörstöðunum í dag til að koma í veg fyrir smit og kjósendur þurfa að vera með grímu.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV