Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tugir fjölskyldna í óvissu

26.06.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Unnið er að því að finna þeim sem missa vinnuna hjá kísilveri PCC á Bakka ný störf á svæðinu. Forstjóri Landsvirkjunar segir ótímabært að tjá sig um áhrif tímabundinnar lokunar verksmiðjunnar.

PCC tilkynnti í gær að báðum ofnum kísilversins á Bakka yrði lokað tímabundið og meiri hluta starfsfólks, 80 manns, sagt upp.

Einstæðingar líklegir til að fara heim

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa um 40 fjölskyldur flutt til Húsavíkur vegna starfa í verksmiðju PCC. Þar af eru um þrír fjórðu erlendir ríkisborgarar. Þetta fólk tekur orðið virkan þátt í samfélaginu og er talið mikilvægt að halda því áfram á staðnum. Um 40 starfsmenn verksmiðjunnar búa í vinnubúðum úti á Bakka. Einstaklingar sem afar líklegt er talið að hverfi á brott þegar framleiðslu verksmiðjunnar verður hætt í næsta mánuði. 

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar, segir að þegar sé byrjað að kanna aðra atvinnumöguleika á svarfssvæði PCC fyrir þá sem missa vinnuna. Þá verði að tryggja að þeir starfsmenn sem eru í leiguhúsnæði á vegum PCC haldi því.

Segir ótímabært að tjá sig um raforkusamning

Rekstur kísilversins hefur verið þungur. Í lok mars var gengið frá samkomulagi við lánveitendur og hluthafa félagsins um fjárhagslega endurskipulagningu. Aðstæður á markaði voru erfiðar áður en kórónuveirufaraldurinn braust út en eftirspurn og verð hafa lækkað mikið vegna hans. Dragist faraldurinn á langinn er hætt við að áætlanir PCC um að ræsa ofnana á ný um áramótin séu í besta falli óraunhæfar.

Lokun kísilversins hefur einnig áhrif á Landsvirkjun sem selur PCC raforku. Stærstur hluti rafmagnsins úr Þeistareykjavirkjun fer til kísilversins. Í skriflegu svari til fréttastofu segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að ótímabært sé að velta fyrir sér áhrifum þess á orkusamning PCC og Landsvirkjunar. Hann vonast til að rekstrarstöðvunin vari stutt og segir að Landsvirkjun sé reiðubúin til viðræðna við PCC um framhaldið.