Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrír látnir eftir brunann á Bræðraborgarstíg

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír eru látnir og tveir eru á gjörgæsludeild Landspítalans eftir brunann sem varð á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Reykjavík í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Einn af þeim sem var fluttur á Landspítalann hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsinu.

Kennslanefnd ríkislögreglustjóra hefur verið kölluð til.

Þrír voru handteknir, þar af tveir á vettvangi, fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Einn er nú í haldi lögreglu vegna rannsóknar málsins og verður ákveðið í dag hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum.

Átta íbúar hússins fengu gistingu hjá Rauða krossinum í nótt og var fólkið bæði Íslendingar og af erlendu bergi brotið samkvæmt upplýsingum frá samtökunum.

Rannsókn lögreglu á brunavettvangi hófst formlega eftir að slökkvilið hafði lokið þar störfum um hálffjögur í nótt.

Tilkynning um eldinn barst kl. 15.15 í gærdag og hélt fjölmennt lið slökkviliðs og lögreglu þegar á staðinn. Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar. Slökkvistarfið tók talsverðan tíma, en mikinn reyk lagði frá húsinu og voru íbúar í nágrenninu beðnir um að loka hjá sér gluggum.

Fréttin hefur verið uppfærð.