Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Svona mál er hreint og klárt glæpamál“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
ASÍ kallar eftir rannsókn á tildrögum brunans við Bræðraborgarstíg í gær. Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í samtali við fréttastofu að bæta þurfi eftirlit með atvinnurekendum sem útvega starfmönnum sínum húsnæði og að herða þurfi viðurlög. 

„Svona mál, að það sé leyft að fólk búi í hættulegu húsnæði við hættulegar aðstæður, er hreint og klárt glæpamál,“ segir Drífa.

Í yfirlýsingu sem ASÍ sendi frá sér í dag kemur fram að líklegt sé að erlent verkafólk hafi búið í húsinu og að atvinnurekandi þeirra hafi útvegað húsnæðið. Verkalýðshreyfingin hafi lengi kallað eftir því að stjórnvöld tryggðu aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi, og kæmu í veg fyrir mansal og félagsleg undirboð á vinnumarkaði.  

Um það hafi verið samið í Lífskjarasamningunum og ekki hafi verið staðið við þau fyrirheit. Drífa segir að þolinmæði verkalýðshreyfingarinnar sé löngu þrotin. 

Verkalýðshreyfingin hefur lagt sérstaka áherslu á að atvinnurekendur verði kallaðir til ábyrgðar ef starfsfólk býr í óviðunandi húsnæði og í yfirlýsingunni kemur fram að vitað sé um fleiri tilfelli þar sem slíkt gæti átt við.  

Drífa segir að ASÍ muni berjast af enn meiri krafti gegn mansali og brotum gegn erlendu verkafólki en áður. Þau krefijst þessi að Alþingi samþykki lög um sanngjarnan vinnumarkað til þess að vinna gegn félagslegum undirboðum.   Þá fari verkalýðshreyfingin fram á að stjórnvöld setji nú af stað aðgerðaáætlun gegn mansali sem ASÍ hefur kallað eftir í mörg ár.