Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sniðganga Facebook vegna hatursorðræðu

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Bandaríska símafyrirtækið Verizon hefur bæst í sístækkandi hóp fyrirtækja sem hyggjast hætta viðskiptum við Facebook. Ástæðan er sögð vera úrræðaleysi samfélagsmiðilsins við að stöðva þau sem ástunda hatursorðræðu og hvetja til ofbeldis.

John Nitti, talsmaður símafyrirtækisins, kveður það hyggjast hætta að birta auglýsingar á Facebook þar til stjórnendur síðunnar hafi fundið ásættanlega lausn í samræmi við það sem YouTube og fleiri hafi þegar gert.

Hann segir óþolandi að auglýsingar frá Verizon birtist við hlið samsæriskenninga, falskra upplýsinga, rógs, hatursorðræðu og rasískra athugasemda.

Fjöldi fyrirtækja ákvað að taka að sniðganga Facebook eftir að samtök sem berjast gegn níði og óhróðri (ADL) kölluðu eftir að það yrði gert. Samtökin hófu nýverið átak sem þau kalla „stöðvum hatur í hagnaðarskyni”.

Facebook þykir hafa gengið heldur handahófskennt til verks við að útrýma þessháttar skrifum. Carolyn Everson, talskona Facebook, segir samfélagsmiðilinn ákveðinn í bregðast við og fjarlægja hatursorðræðu en kvaðst jafnframt virða ákvarðanir fyrirtækjanna.

Árlegar tekjur Facebook af auglýsingum eru áætlaðar vera um 70 milljarðir dollara.