Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Huga að öðrum atvinnutækifærum fyrir starfsfólk PCC

26.06.2020 - 22:45
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Afkoma tuga fjölskyldna í Norðurþingi er í óvissu eftir uppsagnir hjá kísilverksmiðju PCC í gær. Þegar er farið að huga að öðrum atvinnutækifærum. Ráðherra byggðamála segir að meta þurfi afleiðingarnar sem stöðvun verksmiðjunnar hafi í sveitarfélaginu.

Starfsmenn PCC á Bakka eru um 130. Áttatíu þeirra fengu uppsagnarbréf í gær. Neikvæð áhrif COVID-19 faraldursins á markaði með kísilmálm er sögð ástæða þess að framleiðsla í verksmiðjunni verður stöðvuð tímabundið og slökkt á báðum ofnum í lok júlí. Áformað er að hefja rekstur á ný þegar aðstæður leyfa og endurráða starfsfólk.

Tryggja að fólk haldi húsnæðinu og leita annarra starfa

Flestir þeirra sem sagt var upp eru félagar í stéttarfélaginu Framsýn. ,,Þannig er að hluti af þessu starfsfólki, þetta eru margar fjölskyldur sem eru í húsnæði á vegum fyrirtækisins, og við teljum okkur vera búin að tryggja það að fólk haldi húsnæðinu þó að það missi vinnuna núna í haust. Og síðan erum við strax byrjuð að leita til annarra fyrirtækja um að taka þessa einstaklinga í vinnu, þannig að það er allt á fullu hjá okkur," segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.

Þekkt að erlendir starfsmenn færi sig um set

Um 40 fjölskyldur hafa flutt til Húsavíkur vegna starfa í verksmiðjunni, um þriðjungurinn erlendir ríkisborgarar. Þetta fólk tekur orðið virkan þátt í samfélaginu og Aðalsteinn vonar að sem flestir þessara nýbúa fái aðra vinnu og verði áfram á Húsavík. Öðru máli gæti gegnt um á fjórða tug erlendra starfsmanna sem búa í vinnubúðum úti á Bakka. ,,Verða þeir áfram til staðar og bíða, eða munu þeir færa sig um set? Það er svosem þekkt að erlendir starfsmenn færa sig um set ef aðra vinnu er að hafa einhversstaðar annarsstaðar."

Flestir með eins eða tveggja mánaða uppsagnafrest

Tveir trúnaðarmenn hjá PCC sem rætt var við í dag, en báðust undan viðtali,  segja að starfsfólkið hafi skynjað að eitthvað þessu líkt væri í vændum. Uppsagnirnar hafi því ef til vill ekki komið á óvart en séu mikið áfall. Flestir hafi aðeins eins til tveggja mánaða uppsagnarfrest.

Ráðherra segir nauðsynlegt að meta áhrifin

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra byggðamála, segir nauðsynlegt að meta áhrifin af þessu áfalli og afleiðingarnar í Norðurþingi. ,,Já og það sem kannski hefur ekki tekist að koma uppfleiri atvinnurækifærum í þessarri aðstöðu. Allavega ekki hingað til og það þarf þá að setja meiri kraft í það."