Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fylgi forsetaframbjóðenda stendur nánast í stað

Mynd: RÚV / RÚV
Kosið verður til forseta á morgun og samkvæmt nýrri könnun er Guðni Th. Jóhannesson með 93 prósent atkvæða en Guðmundur Franklín Jónsson nærri 7 prósenta atkvæða. Aldrei hafa fleiri kosið utankjörfundar eða 52 þúsund.

Fylgi frambjóðenda stendur nánast í stað frá síðustu Gallup könnun sem var gerð í síðustu viku. 93,4% ætla að kjósa Guðna og 6,6 Guðmund Franklín. Fleiri konur en karlar sögðust myndu kjósa Guðna ef gengið yrði til kosninga í dag eða 98% og 89% karla. 11% karla myndu kjósa Guðmund Franklín, en aðeins tvö prósent kvenna.

Guðmundur Franklín er vinsælli hjá kjósendum Miðflokksins en Guðni; 52% þeirra myndu frekar kjósa Guðmund Franklín. Þá myndu 34% kjósenda Flokks fólksins kjósa Guðmund Franklín og 15% kjósenda Sósíalistaflokks íslands. 96-100% kjósenda annarra flokka styðja Guðna. 

Gallup sá um könnunina fyrir RÚV. nærri 1800 manns svöruðu henni á bilinu 20-25 júní, þátttökuhlutfall var um 50%.

Um 52 þúsund hafa nú kosið utan kjörfundar. „Það er sótthreinsuð hver einasta motta, hver einasti penni, hver einasti kjörklefi, áður en næsti maður maður fer inn. Það er frábrugðið. Það er mikil vinna í því,“ segir Sigríður Rebekka Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi hjá Sýslumanni. 

Yfir 50 þúsund kosið utankjörfundar

Aldrei hafa fleiri kosið utan kjörfundar en nú; nærri 52 þúsund. Þar af Rúmlega fimm þúsund og fimmhundruð í dag.  Um 27 þúsund greiddu atkvæði utan kjörfundar í síðustu forsetakosningum árið 2016.

„Aldrei séð svona“ mikla aðsókn 

Á höfuðborgarsvæðinu er auk Laugardalsvallar hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar á tveimur stöðum í Smáralind. Þar var röð á báðum stöðum í hádeginu í dag.  „Ég hef komið að öllum kosningum frá því að Kristján Eldjárn var kjörinn og ég hef aldrei séð svona. Þetta er stöðugt, fólk kom inn alveg til klukkan tíu í gærkvöldi niðri,“ segir Sigríður Rebekka.

Er þetta merki um góða kjörsókn? „Nei það þarf ekki að vera, kannski frekar að Íslendingar ætli að ferðast um helgina. Maður getur ekki sagt til um það fyrr en á morgun,“ segir Bergþóra Sigmundsdóttir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Tefja utankjörfundaratkvæðin fyrir talningunni á morgun? „Já þau gera það. Því fleiri sem kjósa utan kjörfundar því lengur er verið að ganga frá hjá yfirkjörstjórnum. En þetta er lýðræðið og fólk verður jú að fá að kjósa ef það verður ekki heima á kjördegi.