Fagna titli Liverpool í opinni rútu á Skólavörðustíg

Mynd: Baldur Kristjáns / Twitter

Fagna titli Liverpool í opinni rútu á Skólavörðustíg

26.06.2020 - 11:11
Sóli Hólm, sjálfskipaður formaður Liverpool samfélagsins, er enn að meðtaka sigur liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Samfélagið lofaði í haust að farið yrði í opinni rútu niður Skólavörðustíginn þegar liðið lyfti titlinum og Sóli þarf nú að hefja þá skipulagningu.

Liverpool varð í gær Englandsmeistari í fyrsta sinn í þrjátíu ár þegar Chelsea sigraði Manchester City 2-1. Á miðvikudag hafði Liverpool sigrað Crystal Palace 4-0 og var því komið langleiðina að titlinum þegar leikur City og Chelsea hófst. Niðurstaða þess leiks þýddi að Liverpool voru komnir með 23 stiga forskot á City þegar aðeins 21 stig er eftir í pottinum. 

Sóli, sem var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, segir það óraunverulegt að sigurinn hafi unnist svona en hann var staddur á bráðamóttökunni með son sinn sem hafði dottið af hjóli, þegar leikurinn fór fram í gær. Hann hafi ekki meðtekið þetta fyrr en hann hafi verið kominn heim og sé raunar enn að meðtaka sigurinn þrátt fyrir að hann hafi þannig séð verið löngu kominn í hús, enda tæplega 20 stiga munur á liðunum.

„Covid tók mann svolítið úr sambandi með þetta. Minn stærsti ótti var að tímabilið yrði blásið af þannig að ég tók mig bara úr stemmingunni og aftengdi mig,“ segir Sóli en liði sé bara einfaldlega það langbesta í dag. „Það er enginn einn að draga liðið, Jurgen Klopp [þjálfari Liverpool] er hershöfðingi, mjúkur og faðmandi hershöfðingi sem nær að virkja þessa ungu stráka. Þetta er samheldið lið og það er mikil eining,“ bætir hann við. 

Nú þarf Sóli hins vegar að snúa sér að því að skipuleggja fagnaðarlæti samfélagsins en í haust hafi hann og varaformaður félagsins lofað því að fara í opinni rútu niður Skólavörðustíginn þegar Liverpool myndi lyfta titlinum. Nú þurfi bara að útfæra þá hátíð, finna dagsetningu og rútu. 

Viðtalið við Sóla úr Morgunútvarpinu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Klökkur Klopp og þúsundir fögnuðu fyrir utan Anfield

Fótbolti

Liverpool Englandsmeistarar eftir tap City