Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fá ekki að kjósa í sóttkví

Upplýsingafundur forsætisráðherra og Almannavarna vegna skimunar á landamærum
 Mynd: RÚV
Ekki verður hægt að leyfa þeim 300 að kjósa, sem fara þurfa í sóttkví vegna mögulegs hópsmits sem rekja má til þess að knattspyrnukona í Breiðablik greindist með kórónuveiruna.

Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns á fréttamannafundi forsætisráðherra og Almannavarna nú síðdegis.

Víðir sagði að leitað hefði verið ýmissa leiða til að fólk gæti kosið en það hafi því miður reynst ómögulegt.

Halda áfram að skima við komuna til landsins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á fundinum, sem haldinn var í ráðherrabústaðnum, að stjórnvöld hafi ákveðið að verða við ráðleggingum sóttvarnalæknis um að halda áfram að skima farþega við komuna til landsins. Þessi háttur verði hafður á að minnsta kosti um nokkurra vikna skeið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áður mælt með að skimun verði haldið áfram til að minnsta kosti 13 júlí.

Frá næstu mánaðamótum verða farþegar að greiða sjálfir fyrir skimunina og Katrín segir þá sem greiða skimunina áður en þeir koma til landsins greiða 9.000 krónur en þeir sem slíkt geri við komuna á Keflavíkurflugvöll þurfi hins vegar að greiða 11.000 krónur.

Hópsmitið nú minni á mikilvægi þess að vel sé fylgst með málum og að Íslendingar hafi áfram varann á. Það hafi legið fyrir að svona nokkuð gæti gerst. Katrín kvaðst enn fremur vera sannfærð um að hérlend yfirvöld hafi farið rétta leið með skimunum, smitrakningu og sóttkví.

„Þetta hefur verið gríðarlega mikið verkefni,“ sagði Katrín. „Margir hafa lagt mikið á sig til að þetta geti gengið.“

Ekkert smit greindist í gær

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því að sýni hafi verið tekin úr rúmlega 800 farþegum í gær og ekkert virkt smit hafi greinst í þeim hópi. Staðan nú er því sú að af þeim um 9.000 farþegum sem hafa verið skimaðir til þessa hafa fimm greinst með virkt smit.

Knattspyrnukonan sem mögulegt hópsmit í vikunni er rakið til greindist neikvæð er hún kom til landsins. Þórólfur segir ástæðu þessa þá að hún hafi væntanlega smitast mjög nýlega. Þetta sýni að smithættan sé alltaf fyrir hendi og að hún sé mest frá Íslendingum sem koma frá útlöndum. „Það er lærdómurinn sem við munum taka af þessu,“ sagði hann.

Full ástæða sé því til að hvetja þá Íslendinga sem koma til landsins eftir veru erlendis til að fara varlega og gæta vel að smitvörnum. Þetta eigi sérstaklega við um þá sem eru að koma frá löndum þar sem útbreiðsla kórónuveirunnar er mikil.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, benti á að athyglisvert sé að konan sem greindist í vikunni hafi komi frá einum af þeim stöðum þar sem veiran er enn í vexti. Það hafi sýnt sig að þeir sem komi frá slíkum stöðum séu með meira af veirunni en aðrir.

Áhugavert verði að fylgjast með hvert framhaldið verði varðandi hópsmitið en ljóst sé að baráttunni við kórónuveiruna sé ekki lokið.