Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég bað hann um að stökkva ekki“

26.06.2020 - 19:24
Mynd: RÚV / RÚV
Andor Tibor Vasile, fertugur Rúmeni sem hefur búið hér á landi í sjö ár, missti allar sínar eigur í eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg í gær. Honum var bjargað út úr húsinu með stiga en var fluttur á sjúkrahús með reykeitrun. Andor var nýkominn heim eftir vakt á kaffihúsi í miðborg Reykjavíkur þegar eldurinn kviknaði.

„Ég heyrði öskur í fólki og það hrópaði á pólsku að það væri eldur. Ég skil ekki pólsku og opnaði dyrnar og sé þá eldinn sem kom á móti mér. Ég vætti bolinn minn og braut gluggann og beið eftir að slökkviliðið kæmi,“ segir Andor.

Lögreglan var mætt á vettvang innan við fimm mínútum eftir að eldurinn braust út. Á meðan Andor beið eftir slökkviliðinu bað hann meðleigjanda sinn um að stökkva ekki út um gluggann heldur bíða eftir aðstoð - svo fór hins vegar ekki.

„Það var erfiðast. Ég sagði honum að stökkva ekki, bíða í tvær mínútur. Hann sagðist eiga fjölskyldu og ég sagði að það ætti ég líka. Að ég ætti börn eins og hann og að hann mætti ekki stökkva. Að hjálp væri á leiðinni innan tveggja mínútna. En hann vildi ekki hlusta á mig. Ég held að eldurinn hafi farið hraðar í átt til hans,“ segir Andor.

Neituðu að borga leigu vegna aðbúnaðar

Andor hefur búið í húsinu í sex ár, ásamt um fjórtán öðrum. Hann segist ekki vita til þess að íbúar séu þar á vegum starfsmannaleigu. Aðbúnaður sé þó fjarri því að vera góður. Í fyrra hafi íbúar neitað að greiða leigu í átta mánuði eftir að eigandi hússins hafi neitað að laga lagnir sem fóru í sundur. Allt að tuttugu þurftu þá að deila eldhúsi og salerni.

„Þegar nýi eigandinn mætti með einhverjum kraftakarli var gefið til kynna að borgaði maður ekki þyrfti maður að fara. Ég bað um að fyrst yrði gert við og að rætt væri við fólk eins og fólk, því við vinnum fyrir þessum peningum. Hann fór þá að öskra. Ég bað hann að hætta því því það hræddi mig ekki; lagið þetta bara af því ég borga áttatíu þúsund. Áttatíu þúsund er hálft mánaðarkaupið mitt og ég vinn mikið. Ég fer á fætur fimm á morgnana og kem heim fimm síðdegis. Svo að það er erfitt,“ segir hann.

Andor gistir nú hjá föður sínum sem einnig fluttist hingað til lands fyrir nokkru síðan. Hann segist enn vera í miklu áfalli enda hafi hann þekkt hina íbúana vel. 

„Tvö pör hef ég þekkt í átta mánuði og granna minn sem stökk hef ég þekkt í fimm ár. Við bjuggum saman í fimm ár. Þetta er sorglegt,“ segir Andor.

Uppfært 22:00
Andor segir kaffihúsið sem hann vinnur hjá ekki borga honum jafn lág laun og kom fram í viðtali við hann í kvöldfréttum sjónvarps. Hann áréttar að launin séu í samræmi við allar reglur og að hann hafi einungis tekið svona til orða þegar hann ræddi um upphæð leiguverðsins.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV