Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Binda miklar vonir við „business as usual“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Fyrir árið 2030 þarf losun frá vegasamgöngum að minnka um 37%. Það er stuttur tími en vísindamenn sem mátu aðgerðir í uppfærðri loftslagsáætlun stjórnvalda telja að það náist. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar furðar sig á forsendum matsins, segir grunnsviðsmynd gera ráð fyrir því að stór hluti samdráttarins verði sjálfkrafa án aðgerða. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfisfræði, leiddi matsvinnuna. Hún gerir ráð fyrir viðsnúningi í orkunotkun á næstu tíu árum.

Efast um að losun minnki sjálfkrafa um tæp 300 þúsund tonn

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar segir margt gott og framsækið í áætluninni sem var kynnt á þriðjudag. Hún nefnir til dæmis aðgerðir í orku- og efnanotkun, en hún telur forsendur aðgerðaáætlunarinnar ótrúverðugar og afar ólíklegt að stjórnvöld nái markmiðum sínum. „Auðvitað get ég ekki fullyrt neitt um hvað gerist í framtíðinni, sem vísindamaður muntu ekki fá mig til að halda því fram að það sé garanterað að eitthvað gerist. Hins vegar er ekki trúverðugt, eins og þetta er sett upp í aðgerðaáætlun núna að við þurfum að minnka losun um milljón tonn, og af þessum milljón tonnum eigi tæplega 300 þúsund tonn að koma sjálfkrafa frá vegasamgöngum.“

Hún bendir á að á milli áranna 2005 og 2018 hefur orðið aukning um 200 þúsund tonn. Hún gerir ráð fyrir að sú yrði þróunin áfram, væri ekkert að gert. „Við erum sem sagt ekki að gera ráð fyrir business as usual, sem væri aukning, við erum ekki að gera ráð fyrir því að losunin standi í stað heldur erum við að gera ráð fyrir miklum samdrætti sem er ekki í samræmi við neitt sem hefur verið að gerast á síðastliðnum árum,“ segir Auður. 

Mynd með færslu
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Mynd: Steingrímur Dúi Másson - RÚV
Auður Önnu Magnúsdóttir.
 

 

Í grunnsviðsmyndinni er gert ráð fyrir að losun dragist saman á tímabilinu, um 286 þúsund tonn. Við bætist svo árangurinn sem á að nást með tíu aðgerðum á sviði orkuskipta í vegasamgöngum. Það er samdráttur upp á 71 þúsund tonn - þarna er því ansi stórt gap. Í besta falli næst með aðgerðunum samdráttur upp á 138 tonn - þá þyrfti að ná hlutfalli vistvænna bílaleigubíla upp í 35% og ráðast í töluverð orkuskipti í þungaflutningum. 

Hefur verið lagg en samt vel í lagt

Í grunnsviðsmyndinni er til dæmis horft til þess að tækniþróunin verði í rétta átt, hreinorkubílar verði samkeppnishæfir í verði og bensín- og díselbílar verði sparneytnari. „það hlýtur að vera eitthvað svoleiðis sem þau gera ráð fyrir. Ég veit ekki hvað er þarna á bakvið en það er svolítið vel í lagt því við höfum verið að horfa upp á þessa þróun á þessum árum frá 2005. Bílarnir eru farnir að verða miklu sparneytnari en við erum samt að horfa upp á þessa rosalegu aukningu í losun sem hefur verið. Rafbílarnir eru að ryðja sér til rúms, ekkert eins og er núna, en það er ákveðið lagg, það er fólk sem hefur lengi verið tilbúið að kaupa rafbíl sem er fyrst að geta það núna af því að framboðið er að aukast og Tesla, ég veit um marga sem pöntuðu sér Teslu fyrir tveimur árum og Tesla er loksins að afhenda þá núna. Þau virðast gera ráð fyrir því að þessi þróun verði svona rosalega hröð, við erum bara að tala um níu ár þannig að ég held þetta séu mjög veikar forsendur.“ 

Í raun sé verið að búast við byltingu. „Það er fullkominn viðsnúningur við það sem hefur gerst, algerlega án inngrips og aðgerða.“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Jákvæð teikn: Í lok síðasta árs gengu 7% bílaflotans að einhverju leyti á hreinorkugjöfum. Samgönguráðherra segir að það sem af er ári hafi 50% nýskráðra bíla verið vistvænir.

Vill bæði hvata og álögur

Hún segir að það hefði vissulega mikil áhrif, ef hreinorkubílar verða jafndýrir og sprengihreyfisbílar á tímabilinu. „Það hefur mikið að segja en í aðgerðum sem eiga að skila árangri á svona rosalega stuttum tíma, þá verðum við að hafa bæði hvatningu og takmarkanir. Í þessum aðgerðum sem eiga að varða vegasamgöngurnar þá erum við ekki að tala um  neinar takmarkanir, gjald á bensín og dísel og takmarkanir á innflutningi eða innflutningsgjöld á bensín-og díselbíla. Það mætti líka til dæmis hækka í þrepum innflutningsgjöld á bensín- og díselbíla til að gera þá dýrari.“ 

Kolefnisgjaldið og AGS

Á síðustu árum hefur kolefnisgjaldið hér í tvígang verið hækkað um 10% og einu sinni um 50%. Það nemur nú tæpum tíkalli af hverjum bensínlítra. Auður myndi vilja tvö eða þrefalda það í samræmi við ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tryggja að það renni ekki beint í ríkissjóð heldur aftur til almennings eða til beinna loftslagsaðgerða. „Það er langeffektívasta leiðin, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mælti með því að kolefnisgjald yrði hækkað mjög mikið bara til þess að ná Parísarsamkomulaginu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki róttæk umhverfisverndarsamtök. Ef maður yfirfærir útreikningana á kolefnisgjaldið sem er nú á Íslandi þá þyrfti að tvö til þrefalda það.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels - Pixabay
Bensínstöð.

Þá finnst henni skjóta skökku við að fyrirhugað bann á innflutningi á dísel- og bensínbílum sem taka á gildi árið 2030 sé hluti af aðgerðaáætluninni. „Við erum að reyna að draga úr losun til 2030 og það að banna bensín- og díselbíla eftr að tímabilinu lýkur gagnast ekki, það er ekki aðgerð sem kemur þarna inn. Þetta er aðgerð sem við teljum að eigi að grípa til miklu fyrr, bara árið 2023.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is

Höldum að skipið sé að snúast - en ekki af sjálfu sér

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands, segir að einmitt vegna þessa hafi sú aðgerð að banna innflutning á bensín- og dísilbílum árið 2030 ekki verið tekin með í reikninginn þegar áhrifin voru metin. Brynhildur leiddi teymi vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, sem komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld gætu staðið við skuldbindingar sínar og gott betur. Hvernig útskýrir hún þetta gap, þennan tæplega 300 þúsund tonna samdrátt í losun frá vegasamgöngum sem á að verða óháð samgönguaðgerðunum tíu sem er að finna í uppfærðri aðgerðaáætlun stjórnvalda. „Þetta er hárrétt hjá Auði, þetta er alger viðsnúningur sem að við búumst við að sjá en ég ætla aðeins að fara til baka og fara yfir hvernig komist er að þessari niðurstöðu. Það sem við gerum, í fyrsta lagi, er að greina svokallaða grunnsviðsmynd þar sem við metum hvað gerist ef hlutirnir halda áfram eins og þeir eru í dag, hver árangurinn verður árið 2030. Þetta er svona business as usual sviðsmynd. Þetta er þá gert í öllum geirum sem að aðgerðaráætlunin snýr að, og samgöngur að sjálfsögðu eru mjög stór hluti af þessari heildarmynd. Það sem síðan gerist, í grunnsviðsmyndinni fyrir samgöngur, er að við búumst við því að sú þróun sem þegar er farin af stað í átt að rafbílavæðingu til dæmis muni halda áfram. Það muni ekki hægja á henni heldur þvert á móti muni hún ganga hraðar til ársins 2030. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að við sjáum fyrir okkur að þetta geti gerst. Við sjáum fyrir okkur að verð bensín- og rafbifreiða verði mjög svipað þegar við förum að nálgast árið 2030. Svo sannarlega mun það hafa áhrif. Munum líka að þegar við erum með þessar grunnsviðsmyndir erum við að halda áfram með þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í, við erum ekki að taka til greina nákvæmlega þessa aðgerðaáætlun í grunnsviðsmyndinni heldur allt annað sem þegar hefur verið gert. Þetta er í raun ekki að gerast af sjálfu sér, það er ýmislegt sem hefur átt sér stað nú þegar. Síðan er það sem er alltaf mjög skemmtilegt, að þegar svona fréttist meðal vina og innan fjölskyldna, að einhver sé búinn að kaupa sér rafbíl, það hvetur aðra til að halda áfram og kaupa sér líka bíl. Það má segja að þróunin sé smitandi og það er eitthvað sem við skoðum líka í okkar módeli,“ segir Brynhildur.  

En hvað er það sem breytist núna, því nú hefur þróunin hefur verið í þessa átt síðastliðin fimm, tíu ár en samt heldur losun frá umferð áfram aukast. Það er enn of dýrt fyrir marga að kaupa rafbíl. Bensínbílar verða fluttir inn í skipsförmum fram til ársins 2030. Landsmönnum fjölgar líklega. Af hverju fer þróunin í grunnsviðsmyndinni þá niður á við núna? 

„Þetta er ofsalega skemmtileg spurning. Við getum ímyndað okkur samlíkingu, það er ofsalega erfitt að snúa við þungu skipi en okkur virðist sem það sé að gerast núna, við erum að ná að snúa því, vonandi á rétta braut. Við sjáum það mjög glöggt, til dæmis í kauphegðan þeirra sem eru að kaupa sér bíla núna að þeir eru að fara í áttina að rafbílum eða loftslagsvænni bifreiðum í mun meiri mæli heldur en hefur verið gert áður. Við erum að sjá þessar breytingar í samfélaginu nú þegar og síðan til viðbótar munu þessar aðgerðir herða eða hraða enn frekar þessu ferli. Það er í raun og veru þess vegna sem við búumst við að við förum að sjá samdrátt í losun frá samgöngum. Vegna þess að það tekur tíma, allar svona breytingar taka tíma.“ 

Notuðu ekki gömlu eldsneytisspána

Eldsneytisspá orkustofnunar var síðast uppfærð árið 2016, Brynhildur segir að einmitt þess vegna hafi ekki verið stuðst við hana við matið, heldur nýrri gögn. „Eldsneytisspáin á bæði við samgönguhlutann og sjávarútvegshlutann og þess vegna var farið í að uppfæra þá spá og það var notað annað spálíkan. Núna í haust verður eldsneytisspáin formlega uppfærð og þá verða allar greiningarnar uppfærðar einnig.“

Býstu við því að aðgerðaáætlunin og matið taki miklum breytingum við það? 

„Nei, ég á ekki von á því vegna þess að ég geri ráð fyrir að svipaðar forsendur verði lagðar til grundvallar, tæknin er ekki að fara að breytast frá því núna og þar til í haust og svo framvegis.“  

Vill beita öllum hagstjórnartækjum

Auður talar um að það þurfi bæði ívilnanir og álögur til að ná árangri. Telur Brynhildur árangursríkt að allt að því þrefalda kolefnisgjaldið eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til?  „Ég er alveg sammála því að við eigum að beita öllum þeim hagrænu stjórntækjum sem við getum beitt og þá að sjálfsögðu eigum við að beita bæði ívilnunum og gjöldum eða sköttum, hins vegar vil ég þó minnast á það hér að greining Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur sýnt að áhrif kolefnisgjalds á samdrátt í vegasamgöngum, við búumst ekki við því að það sé eins mikið og kannski hér er um rætt en ég held það þurfi að beita öllu sem við getum.“

Í greiningu Hagfræðistofnunar kom fram að það að hækka kolefnisgjald um 1% stuðlaði að 0,3% samdrætti í eldsneytiskaupum einstaklings. 

Miðað við greiningarnar og reiknilíkanið er Brynhildur nokkuð viss um að markmiðin náist. „Þetta er nokkuð varfærin spá, og miðað við hana sýnist okkur að við munum ná 35% samdrætti miðað við árið 2005 fyrir árið 2030. “ 

Mynd með færslu
 Mynd: - - Samfélagið

 

Eldsneytisspá orkustofnunar var síðast uppfærð árið 2016, Brynhildur segir að einmitt þess vegna hafi ekki verið stuðst við hana við matið, heldur nýrri gögn. „Eldsneytisspáin á bæði við samgönguhlutann og sjávarútvegshlutann og þess vegna var farið í að uppfæra þá spá og það var notað annað spálíkan. Núna í haust verður eldsneytisspáin formlega uppfærð og þá verða allar greiningarnar uppfærðar einnig.“

Býstu við því að aðgerðaáætlunin og matið taki miklum breytingum við það? 

„Nei, ég á ekki von á því vegna þess að ég geri ráð fyrir að svipaðar forsendur verði lagðar til grundvallar, tæknin er ekki að fara að breytast frá því núna og þar til í haust og svo framvegis.“  

Auður talar um að það þurfi bæði ívilnanir og álögur til að ná árangri. Telur Brynhildur árangursríkt að allt að því þrefalda kolefnisgjaldið eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til?  „Ég er alveg sammála því að við eigum að beita öllum þeim hagrænu stjórntækjum sem við getum beitt og þá að sjálfsögðu eigum við að beita bæði ívilnunum og gjöldum eða sköttum, hins vegar vil ég þó minnast á það hér að greining Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur sýnt að áhrif kolefnisgjalds á samdrátt í vegasamgöngum, við búumst ekki við því að það sé eins mikið og kannski hér er um rætt en ég held það þurfi að beita öllu sem við getum.“

Í greiningu Hagfræðistofnunar kom fram að það að hækka kolefnisgjald um 1% stuðlaði að 0,3% samdrætti í eldsneytiskaupum einstaklings. 

Miðað við greiningarnar og reiknilíkanið er Brynhildur nokkuð viss um að markmiðin náist. „Þetta er nokkuð varfærin spá, og miðað við hana sýnist okkur að við munum ná 35% samdrætti miðað við árið 2005 fyrir árið 2030. “