Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Allir verði að taka höndum saman til að eyða biðlistum

26.06.2020 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Læknafélag Íslands - Lækanfélag Íslands
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands segir að ríkið, sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir einkareknar og á vegum hins opinbera verði að taka höndum saman og vinna á biðlistum eftir læknisaðgerðum. Það sé liður í að rétta samfélagið af eftir faraldurinn. Í það þurfi að setja sérstakt fjármagn.

Ekki fjárheimild til að semja við Klíníkina

Biðlistar hafa lengst hér á landi vegna heimsfaraldursins, bæði var aðgerðum frestað en auk þess var ekki hægt að senda fólk til útlanda í aðgerðir.  
Átta hundruð og þrjátíu bíða eftir liðskiptaaðgerð á Landspítalanum.  

Kona sem er illa haldin af slitgigt og átti að fara til Svíþjóðar í aðgerð, gat ekki beðið og gekkst undir liðskiptaaðgerð í Klíníkinni í Ármúla. Sjúkratryggingar hafa ekki viljað greiða fyrir aðgerðina. 


María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga sagði í fréttum í gær að nokkur sjúkrahús sinni liðskiptaaðgerðum einkum Landspítalinn og sjúkrahúsin á Akureyri og Akranesi en ekki séu fjárheimildir til að til að semja við Klíníkina um liðskiptaaðgerðir.  

Allir taki höndum saman

Reynir segir að lausnin sé samstillt átak ríkisins, heilbrigðisstofnananna, sjúkrahúsanna og heilbrgiðisfyrirtækjanna í landinu.  „Þeirra sem að hafa skurðstofur eða geta veitt aðra þjónustu þar sem að eru biðlistar og er töf á þjónustu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Ég held að við verðum bara að taka höndum saman og leysa þetta mál með átaksverkefni allra þessara aðila. Ekki að reyna að útiloka einn aðila eða láta rekstrarformið þvælast fyrir okkur. Við eigum að setja sjúklinginn í forgrunn og hvernig við getum veitt þjónustuna og að hún sé veitt hérna á Íslandi.“

Stjórnvöld setji fjármagn í biðlistaátak

Reynir segir að stjórnvöld geti ekki komist hjá því að leggja meira fjármagn í aðgerðirnar.

„Og við vitum að þetta er hluti af því að rétta við samfélagið eftir covid krísuna okkar sem við erum komin út úr eða erum ennþá inn í. Það er alveg ljóst að það þarf að setja viðbótarfjármagn inn í þetta alveg eins og aðra liði sem þarf að standa vörð um í samfélaginu.“

Reynir skrifar einnig um biðlistana á vef Læknafélags Íslands