Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ákvörðun PCC mikið högg

26.06.2020 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir tímabundna lokun kísilvers PCC á Bakka mikið högg fyrir atvinnulíf í Norðurþingi. Starfsemi PCC hafi ásamt ferðaþjónustu stuðlað að mikilli uppbyggingu á svæðinu og því sé það mikið áhyggjuefni að báðar þessar greinar glími við erfiðleika.

„Þannig að þegar dregur saman í ferðaþjónustu og þetta fyrirtæki ætlar að loka tímabundið vegna markaðsaðstæðna þá er það gríðarlega mikið högg. Við finnum líka fyrir því bara sem þjóðarbú,“ sagði Bjarni er hann var spurður út í ákvörðun PCC um að slökkva á ofnum sínum í lok næsta mánaðar. 80 manns missa vinnuna.

Orkufrekur iðnaður í vanda

Þá hefur Bjarni einnig áhyggjur af stöðu stóriðju í landinu því kísilverin og álverin glími við erfiðleika sem þó vonandi séu tímabundnir.

„Orkufrekur iðnaður í augnablikinu í erfiðleikum. Við sjáum það á rekstrartölum allra fyrirtækjanna í orkufrekum iðnaði. Þau kísilver sem hafa verið að koma sér fyrir á Íslandi undanfarin ár hafa verið í rekstrarerfiðleikum og ekki alveg útséð með það hvernig spilast úr því. Álverin hafa verið í rekstrarhalla sömuleiðis. Þú nefnir ÍSAL sem hefur verið í miklum taprekstri. Þetta er áhyggjuefni. Að því leyti sem að þetta ástand sem þetta tengist heimsfaraldrinum vonumst við  til þess að þetta sé bara tímabundið og þau nái sér aftur á strik.“