Víkingur R áfram eftir sigur í vítaspyrnukeppni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Víkingur R áfram eftir sigur í vítaspyrnukeppni

25.06.2020 - 22:03
Mikil dramatík var í leikjum kvöldsins í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Breiðablik hafði betur gegn Keflavík 3-2 og Víkingur Reykjavík komst áfram eftir sigur á Víkingi Ólafsvík í vítaspyrnukeppni.

Úrvalsdeildarlið Breiðabliks tók á móti Keflavík, sem leikur í fyrstu deildinni, í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í kvöld. Fyrsta mark leiksins kom eftir átta mínútna leik og það var Guðjón Pétur Lýðsson sem skoraði það, en aðstoðardómari flaggaði rangstöðu og markið dæmt af. Á 32. mínútu komust Breiðablik svo yfir með marki frá Stefáni Inga Sigurðarssyni sem skallaði boltann í markið af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Kwame Quee. 1-0 stóð í leikhléi og Breiðablik mun betra liðið í fyrri hálfleik.

Það voru þó rétt liðnar fimm mínútur af seinni hálfleik þegar hið ótrúlega gerðist og Rúnar Þór Sigurgeirsson, bakvörður Keflavíkur, skoraði beint úr hornspyrnu og jafnaði metin fyrir gestina. Stundarfjórðungi síðar bættu Keflvíkingar í forystuna þegar Kian Williams setti boltann í markið eftir fyrirgjöf frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni. Staðan því nokkuð óvænt orðið 1-2 fyrir Keflavík sem voru mun kraftmeiri í seinni hálfleik en þeim fyrri.

Þegar um níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma jafnaði Kristinn Steindórsson metið fyrir Blika á Kópavogsvelli og hörkuspenna komin í leikinn. Fimm mínútum síðar var Kristinn aftur á ferðinni og skoraði þriðja mark Breiðabliks og staðan orðin 3-2. Það urðu lokatölur leiksins og Breiðablik komið áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Víkingur R jafnaði í uppbótartíma og vann í vítaspyrnukeppni

Á Ólafsvíkurvelli tók Víkingur Ólafsvík, sem leikur í fyrstu deildinni á móti úrvalsdeildarliði Víkings frá Reykjavík. Fyrsta mark leiksins kom rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar Gonzalo Zamorano kom heimamönnum yfir með glæsilegu marki.

Þannig stóð í leikhléi og nær allan seinni hálfleikinn en Víkingur R náðu loksins að setja mark þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma. Atli Hrafn Andrason átti þá góða fyrirgjöf á Helga Guðjónssyni sem lagði boltann í nærhornið og staðan orðin jöfn. Stuttu síðar var flautað af og leikurinn fór í framlengingu. Á 102. mínútu fékk James Dale hjá Víkingi Ó að líta rauða spjaldið eftir að hann lenti í samstuði við Atla Hrafn Andrason og höndin á honum virtist fara í andlit Andra. Hvorugt liðið náði þó að skora í framlengingunni og því fór leikurinn í vítaspyrnukeppni. Gestirnir úr Reykjavík unnu vítaspyrnukeppnina að lokum 5-6 og eru því komnir áfram í 16-liða úrslitin.