Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Við öðlumst visku gegn vilja okkar

Mynd: Ex Machina / Skjáskot

Við öðlumst visku gegn vilja okkar

25.06.2020 - 13:14

Höfundar

„Ég stend sjálfan mig að því að grafa ofan í mold sögunnar með berum höndum, krafsa og fálma eins og villimaður, í leit að einhverju sem ég skil ekki,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„Seifur leiðir dauðlega menn brautina til skilnings. Hann hefur boðið oss að lúta því óhagganlega lögmáli speki að nema í krafti þjáninganna. Í stað svefnsins, sem færir oss algleymi, drýpur kvöl til hjartans, og engan frið er að fá, fyrr en vér höfum vitkast, þó tregir séum til þess. Með nokkurs konar ofbeldi kemur til vor náð hinna guðlegu máttarvalda, sem hafin eru á hinn æðsta veldisstól.“ 

Svona mælir kórinn snemma í leikritinu Agamemnoni eftir forngríska leikskáldið Aiskýlos. Þetta er úr þýðingu Jóns Gíslasonar á verkinu frá 1967. Agamemnon er fyrsti hlutinn í þríleik sem kallaður er Óristeia og það hlaut fyrstu verðlaun á Dýnónísosarhátíðinni í Aþenu árið 458 fyrir Krist, hvorki meira né minna. Leikritið fjallar um Agamemnon konung í Mýkenu sem kemur heim að Trójustríðinu loknu, lúinn eftir tíu ára bardaga, og þær viðtökur sem Klýtemnestra, eiginkona hans, hefur búið honum, hinum mikla sigurvegara, sem hún myrðir síðan í kerlaug með fulltingi friðils síns Aigisþosar. 

Þetta er mögnuð hugsun. Við vitkumst gegn vilja okkar, við erum treg til þess, og náð hinna guðlegu máttarvalda kemur til okkar með nokkurs konar ofbeldi. Í dag hafna margir Guði á þeim forsendum að sé hann til sé engin ástæða til þess að vera að púkka upp á svona grimman og hrikalegan skapara sem lætur svo mikla þjáningu verða til í heiminum. Þetta er hin klassíska spurning um illskuna, af hverju er hún til og hvaða gagni þjónar hún? Forn-Grikkir litu hins vegar svo á að það sé einmitt mótvindur lífsins sem beri okkur að lokum til viskunnar. Guðirnir sendi okkur mótlætið okkur sjálfum til heilla, svo að segja. Þannig er viskunni þröngvað upp á okkur eins og barn er látið drekka lýsi. Gjaldið sem við greiðum fyrir hana er þjáning. 

Jobsbók og viska sem guðsótti

Við sjáum aðra nálgun á þessa sömu hugsun til dæmis í 28. kafla Jobsbókar. Þar segir meðal annars: „Að sönnu á silfrið upptökustað og gullið, sem menn hreinsa, fundarstað. Járn er tekið úr jörðu, og steinn er bræddur að eiri. Maðurinn hefir gjört enda á myrkrinu, og til ystu takmarka rannsakar hann steinana, sem faldir eru í kolniðamyrkri. Upp úr jörðinni sprettur brauð, en niðri í henni er öllu umturnað eins og af eldi. Safírinn finnst í grjóti jarðarinnar, og gullkorn fær sá er grefur. En spekin, hvar er hana að finna, og hvar á viskan heima? Enginn maður þekkir veginn til hennar, og hana er ekki að finna á landi lifenda.“

Og síðan heldur skáldið áfram: „Undirdjúpið segir: Í mér er hún ekki! og hafið segir: Ekki er hún hjá mér! Hún fæst ekki fyrir skíragull, og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar. Já, spekin, hvaðan kemur hún, og hvar á viskan heima? Hún er falin augum allra þeirra er lifa, og fuglum loftsins er hún hulin. Undirdjúpin og dauðinn segja: Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið.“

Síðan fáum við loksins svarið: „Guð veit veginn til hennar, og hann þekkir heimkynni hennar. Því að hann sér til endimarka jarðar, lítur allt, sem undir himninum er. Þá er hann ákvað þunga vindarins og ákvarðaði takmörk vatnsins, þá er hann setti regninu lög og veg eldingunum, þá sá hann hana og kunngjörði hana, fékk henni stað og rannsakaði hana einnig. Og við manninn sagði hann: Sjá, að óttast Drottin það er speki, og að forðast illt það er viska.“

Jobsbók er eitt mikilfenglegasta harmkvæði sem um getur, sársauki og þjáning Jobs er hér um bil óendanlega mikil, en boðskapurinn er ekki sá að það sé eitthvert sérstakt gildi í sársaukanum, það er enginn sérstakur lærdómur í honum fólginn, Job vitkast ekki gegnum sinn djúpstæða missi, sínar ólýsanlegu kvalir. Guð einn veit hvar viskan er. Að óttast Drottinn það er speki, að forðast illt það er viska. Það er að segja: Vertu réttlátur og þá öðlastu visku. Hér er ekki greitt neitt sérstakt gjald fyrir það að vitkast, heldur er viskan verðlaun fyrir rétta breytni í samræmi við Guðs vilja. 

Feigur maður minnist Martin Luther King

Ferðumst nú til 4. apríl 1968. Við erum stödd í Bandaríkjunum, nánar tiltekið borginni Indianapolis í Indiana-ríki. Bobby Kennedy er nýlentur. Hann ferðast nú vítt og breitt um Bandaríkin í kosningabaráttu sinni. Þegar hann stígur út úr þotunni fær hann fréttir. Það er búið að myrða Martin Luther King. Í stað þess að halda klassíska kosningaræðu fer Kennedy með persónuleg minningarorð um King frammi fyrir mannfjöldanum. Hann gerir þetta blaðlaust. Hann talar frá hjartanu. Þetta er maður sem þekkir hryllinginn og illskuna á eigin skinni. Hann minnist þess þegar stóri bróðir hans, John F. Kennedy forseti, var skotinn til bana fimm árum áður.

Hann talar um sundrungina í bandarísku þjóðfélagi og mikilvægi bræðralagsins. Og síðan segir hann: „Mitt eftirlætisskáld er Aiskýlos, sem sagði …“ og síðan fer hann með tilvitnunina sem ég hóf þennan pistil á. Upptakan af þessari ræðu er til á YouTube og ég mæli með henni. Það er svo flott hvernig Kennedy flytur texta Aiskýlosar, kannski ekki síst vegna þess að hann gerir það hægt og pínulítið hikandi. Það er ekki auðvelt að muna slíkan texta og hann þarf sýnilega að hafa svolítið fyrir því að fiska orðin upp úr minni sínu svona óundirbúinn. Þetta snertir mikið við manni, bæði vegna þess hvað maðurinn er fágaður, glæsilegur og já, vitur, gagnvart svona stórkostlegum hryllingi, en auðvitað líka vegna þess að maður veit að hann sjálfur verður síðan skotinn til bana, alveg eins og King, tveimur mánuðum síðar. 

Skandinavi leitar að gildum

Nú geisar banvænn faraldur og heimurinn logar enn á ný vegna óréttarins sem svart fólk er beitt víða um heim, sem og vitaskuld annars konar óréttlætis. Og ég býst við því að á tímum svo mikillar ólgu og óvissu sé spurning mín: Hvar er viskuna að finna? Og kannski frekar: Af hverju líður mér eins og það sé hreinlega hallærislegt og gamaldags að spyrja svona spurninga? Ég skrifa þetta af einlægri forvitni, en á öðrum stað í huga mínum sé ég sjálfan mig fyrir mér þar sem ég ranghvolfi augunum og glotti hæðnislega, kannski vegna þess að ég er alinn upp í markaðsþjóðfélaginu þar sem allt er fyrst og fremst stemmning, og það að pæla í einhverju alvarlegu og ósöluvænlegu eins og hugtakinu visku er fyrst og fremst lúðalegt og skrýtið.

En er ekki viska það sem við þurfum einmitt núna? Viljum við ekki geta brugðist viturlega við því hvernig heimurinn þróast og breytist? En hvar er viskuna þá að finna? Ef við til dæmis lítum okkur nær, hvar er viskuna að finna í hinni guðlausu Skandinavíu? Hvar á maður að leita hennar? Ég er ekki að segja að viska fáist aðeins gegnum guðstrú, en þú veist, á hvað trúum við eiginlega hérna? Hér er ég að meina trú í þeim skilningi; hver trúum við að sé uppspretta þeirra gilda sem við lifum eftir? Ég held að það sé nokkuð ljóst að við trúum ekki á hinn kristna Guð, ekki nema svona kannski til málamynda. Er þjáning gjaldið sem við greiðum fyrir viskuna? Eða er hún verðlaun þess að óttast Guð? Hverju trúum við í raun? Trúum við á Yfirmenni Nietzsches? Trúum við því að maðurinn sjálfur geti verið uppspretta sinna eigin siðferðisgilda? Eða höldum við eins og Dostojevskí að slíkt leiði bara til níhilisma og uppspretta dyggðanna verði að koma frá einhverju sem er okkur æðra? Trúum við því að Íslendingasögurnar kenni okkur visku? Eða getur verið að við eigum engin sérstök svör við þessu, við trúum því bara að þetta reddist einhvern veginn, við trúum ekki lengur á neitt sérstakt, hvorki okkur sjálf né einhverja æðri uppsprettu siðlegrar breytni, og að það hafi mögulega einhver tengsl við það hversu gegndarlaust vantraust ríkir hér í garð valdhafa þótt Ísland sé einn friðsamasti staðurinn á plánetunni Jörð?

Í þessum spurningum felst enginn dómur, þetta er bara forvitni, en kannski eru þær óhjákvæmilega gildishlaðnar, kannski verður ekki hjá því komist. Ég veit bara að í öllu fordæmisleysinu stend ég sjálfan mig að því að leita, ég stend sjálfan mig að því að grafa ofan í mold sögunnar með berum höndum, krafsa og fálma eins og villimaður, í leit að einhverju sem ég skil ekki, og eflaust með þá hljóðu von í hjarta, að hann hafi ekki neglt þetta þarna fyrir 2.500 árum síðan, þessi gaur þarna í Aþenu, þetta leikskáld, sem sagði okkur nema í krafti þjáninganna.

Tengdar fréttir

Pistlar

Við erum bara að reyna að hafa gaman

Pistlar

Varnarræða fyrir melankólíuna

Pistlar

Að þrá úr fjarlægð

Pistlar

Allar manneskjur eru ólöglegar