Trump á fjöldafundum - „Hvar ertu Joe?“

Mynd: AP / AP
Joe Biden hefur haldið sig til hlés það sem af er baráttunni fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, en þrátt fyrir það eykst fylgi hans. Hann velur varaforsetaefni sitt fljótlega og einna líklegust er fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Baracks Obama.

Biden hefur látið lítið fyrir sér fara frá því kórónuveiran fór að breiðast hratt um Bandaríkin. Hann hefur ekki haldið fjöldafundi á meðan forsetinn fer milli ríkja og freistar þess að ná til kjósenda, á meðan Biden situr heima. Þeir viðburðir sem Biden hefur sótt tengjast flestir dauða George Floyd, og mótmælunum sem honum fylgdu. Í vikunni hélt hann svo fjarfund ásamt Barack Obama, fyrrverandi forseta, þar sem þeir ræddu meðal annars Obamacare, trygginga- og heilbrigðislöggjöf sem Obama kom á, en Trump vill afnema, en það var eitt af kosningaloforðum hans fyrir síðustu kosningar. „Herra forseti, slepptu þessari málshöfðun. Hættu að reyna að losna við heilbrigðislöggjöfina, hættu að taka heilsugæsluna og hugarróna af fólki,“ sagði Biden í kvöld. 

Hann hefur látið lítið fyrir sér fara undanfarið og Trump sagði syfjaða Joe, eins og hann hefur stundum kallað hann, standa undir nafni þessa dagana. „Biden þykist vera eitthvert hörkutól. Hann veit ekki hver í fjáranum hann er. Hvar ertu Joe, hvar ertu?“ spurði Trump á fjöldafundi í Pheonix í gærkvöldi. 

„Hann hefur ekki farið út úr húsi virðist vera“

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að svo virðist sem rólegheitin komi Biden vel, í það minnsta í bili, því samkvæmt könnunum hefur hann gott forskot á Trump. „Þetta er svolítið sérstakt, hann hefur ekki farið út úr húsi virðist vera. Situr heima og allir kosningaviðburður eur á netinu þannig að þeir virka öðruvísi, maður sér ekki hvernig stemningin er í kringum framboðið en á nýafstöðnum fundi með Obama þá náðist að safna töluverðu fé, og hann er á góðri leik með fjáröflun og þessar kannanir eru að koma ofboðslega vel út fyrir hann, en hins vegar eru alveg fjórir mánuðir til kosninga, þannig að það eru tækifæri til að breyta ýmsu,“ segir Silja Bára.  

Margar um varaforsetann

Ein af þessum breytum er varaforsetaefni Biden, sem hann ætlar að velja í ágústbyrjun. Hann tilkynnti fyrir nokkru að það yrði kona og síðan hafa tugir kvenna verið nefndar til sögunnar. Þar á meðal eru Keisha Lance Bottoms, sem er borgarstjóri í Atlanta og Val Demings frá Flórída, en það eitt og sér styrkir mjög hennar stöðu. Síðan þær Kamala Harris og Elizabeth Warren. Þær börðust báðar við Biden um útnefningu Demókrataflokksins en af þeim er Harris mun líklegri til að verða fyrir valinu. En einna líklegust núna er Susan Rice. Hún var þjóðaröryggisráðgjafi Obama, og hefur því starfað náið með Biden áður. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi