Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tilefni að endurskoða þá leið sem ráðherra nýtir sér

Mynd með færslu
 Mynd:
Jafnréttisstofa telur að skoða þurfi nánar hvað þarf til þess að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála eins og menntamálaráðherra ákvað að gera í gær, að stefna þurfi einstaklingi til þess að ógilda úrskurð nefndar.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ætlar að höfða mál gegn konu sem kærunefnd jafnréttismála taldi að ráðherra hefði brotið á, þegar gengið var fram hjá henni við ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra. Þetta er eina færa leiðin samkvæmt lögum um kærunefndina til þess að ógilda úrskurð hennar.

„Það verður að athugast að lögin um jafna stöðu og réttindi karla og kvenna gera ráð fyrir þessari heimild ráðherra. Þessi réttur er beggja málsaðila, væntanlegur kærandi hefði líka haft þetta úrræði ef málið hefði ekki farið á hennar veg,“ segir Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu.

En hvað með þessa leið að þurfa að fara í mál við einstakling til að geta ógilt úrskurð kærunefndar?

„Já, það er athyglisvert. Þetta er hugsað sem gjafsóknarúrræði. En það má alveg staldra við og skoða þetta aðeins betur því í raun og veru er verið að stefna einstaklingi fyrir dóm fyrir það eitt að bera upp ráðningarferli við kærunefnd jafnréttismála. Þetta er eitthvað sem Jafnréttisstofa telur að sé tilefni til að skoða aðeins nánar og athuga hvort það megi ekki útfæra þetta aðeins betur, að þér verði ekki stefnt fyrir það að nýta þennan rétt samkvæmt jafnréttislögum.“

Jón segir að það sé tilefni til þess að taka þetta til athugunar nú þegar endurskoðun á jafnréttislögum fer fram.

„Þetta atriði verðskuldar það að þetta sé þá kannski tekið upp til nánari skoðunar í þeirri vinnu. Að það sé allavega hvatning til að líta á þetta og athuga hvort séu tilefni til úrbóta,“ segir Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur Jafnréttisstofu.