Metfjölgun smitaðra í fjölmennustu ríkjunum

25.06.2020 - 02:24
epa08424872 People wait in line to get care packages with food donations from the Food Bank for New York City in Brooklyn, New York, New York, USA, 15 May 2020. Unemployment claims in the US are above 36 million people as the national economy is showing a massive impact from state and city responses to controlling the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/Alba Vigaray
Atvinnulausir New York-búar bíða eftir matargjöfum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Nærri 35 þúsund ný tilfelli kórónuveirunnar komu upp í Bandaríkjunum undanfarinn sólarhring. Fjöldi smitaðra jókst í 26 ríkjum, einkum í suður- og vesturríkjunum. Þetta sýna tölur frá Johns Hopkins háskólanum.

Í Kaliforníu, Texas og Flórída hafa aldrei fleiri greinst með veiruna. Þar búa rúmlega 27% Bandaríkjamanna. Heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út viðvaranir vegna ástandsins. 

Ríkisstjóri Texas hvetur íbúa ríkisins til að halda sig heima við. Í Kaliforníu er fólk beðið að gæta öryggis, hyggja vel að hreinlæti og nota grímur. „Elskaðu náunga þinn eins og sjálfan þig” eru skilaboð ríkisstjórans. Opnun Disneylands sem átti að vera 17. júlí hefur verið slegið á frest.

Sjúkrahús um allt land búa sig nú undir að sjúklingum gæti fjölgað mjög á næstunni. Búist er við að grípa þurfi til neyðaráætlana svo hægt verði að sinna sem flestum.

 Víða um land er íbúum ráðlagt að halda sig heimavið og sífellt fleiri fara í sóttkví. 

Yfirvöld í New York ríki fara fram á að gestir þangað frá ákveðnum svæðum Bandaríkjanna fari í tveggja vikna sóttkví. Hið sama á við um New Jersey og Connecticut. New York maraþoninu hefur verið slegið á frest vegna faraldurins.

Undanfarinn sólarhring varð COVID-19 756 að bana vestra en tæplega 122 þúsund hafa nú látist þar af völdum veirunnar. Óttast er að sú tala eigi eftir að nálgast 180 þúsund fyrir sumarlok.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi