Lufthansa líklega bjargað

25.06.2020 - 12:00
epa08503432 View of German flag carrier Lufthansa's logo at an empty counter inside a terminal of the international airport in Frankfurt am Main, Germany, 23 June 2020. According to media reports, the German government and Lufthansa have reached an agreement on a bailout rescue package. On 25 June 2020 Lufthansa will hold its Annual General Meeting.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Búist er við að hluthafar í þýska flugfélaginu Lufthansa samþykki björgunarpakka þýsku ríkisstjórnarinnar fyrir félagið. Ríkið veitir alls níu milljarða evra aðstoð gegn því að eignast 20% hlut í félaginu. Lufthansa gerði kjarasamning við flugfreyjur félagsins í gærkvöld.

Viðræður hafa staðið yfir síðustu vikur um hvernig þýska ríkið kemur að björgun Lufthansa. Stjórnendur fyrirtækisins sömdu á endanum um sex milljarða evra í beina aðstoð frá ríkinu og þrjá milljarða til viðbótar í formi láns með ríkisábyrgð. Samtals er aðstoðin jafnvirði 1.400 milljarða íslenskra króna, og fær ríkið 20% eignarhlut í félaginu í staðinn.

Carsten Spohr, forstjóri fyrirtækisins, sagði að gjaldþrot blasti við ef aðstoðin yrði ekki samþykkt. Stærsti hluthafinn, Heinz Hermann Thiele, hefur hins vegar gagnrýnt þennan samning og hefði getað stöðvað hann í krafti eignarhlutar síns.

Thiele lýsti því hins vegar yfir í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung í gærkvöld að hann styddi aðstoðina og því er búist við að björgunarpakkinn verði samþykktur á hluthafafundi sem nú stendur yfir. Evrópusambandið lagði blessun sína yfir aðstoðina í morgun. Flugfélaginu hefur því verið bjargað. Þó blasir við að störfum fækkar um nokkur þúsund.

Félagið náði í gærkvöld samkomulagi við flugfreyjur um að draga úr kostnaði, meðal annars með færri tímum, minna orlofi og frystingu launa að hluta.

Það eru þó ekki allir sáttir við þessa niðurstöðu. Írska lágfargjaldaflugfélagið RyanAir ætlar að skjóta málinu til Evrópudómstólsins. Lufthansa sé hreinlega orðið háð ríkisaðstoð.

Og fleiri félög í flugrekstri eru í vandræðum. Ástralska félagið Quantas tilkynnti í morgun að störfum yrði fækkað um sex þúsund, sem er fimmtungur af stöðugildum félagsins. Þá tilkynnti breska flugþjónustufyrirtækið Swissport í gær að meira helmingi starfsmanna yrði sagt upp, rúmlega 4.500 manns.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi