Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kafbátur á Faxaflóa

25.06.2020 - 10:23
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Glöggir gætu hafa rekið augun í kafbát úti fyrir Reykjavíkurhöfn fyrr í morgun. Kafbáturinn lagðist að Skarfabakka og samkvæmt heimildum frá Samgöngustofu er hann hingað kominn vegna kafbátaleitaræfingarinnar Dynamic Mongoose.

Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2020 verður haldin hér á landi 29. júní til 10. júlí á vegum Atlantshafsbandalagsins. Sex ríki taka þátt í æfingunni, Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kanada, Noregur og Bretland, auk Íslands. Hingað koma fimm kafbátar, fimm freigátur og fimm kafbátaleitarflugvélar. Skipin koma til landsins í dag og á morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.

Dynamic Mongoose fór síðast fram á Íslandi árið 2017, en annars hafa æfingarnar verið haldnar árlega í Noregi frá árinu 2012. Landhelgisgæsla Íslands tekur þátt í æfingunni. Notuð verður stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli auk varðskipa og þyrlna. 

Í tilkynningunni kemur fram að komur skipanna hafi verið skipulagðar í samráði við íslensk heilbrigðisyfirvöld og að hugað sé að viðeigandi sóttvarnaráðstöfunum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Árni Þór Lárusson - Aðsend
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV