Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Friðarsamningur Ísreala og Jórdana í uppnámi

25.06.2020 - 04:22
Mynd með færslu
Landtökufólk í Elazar-landtökubyggðinni reynir að hindra að Ísraelsher rými húsin og jafni við jörðu í júní í sumar, í einu örfárra tilfella sem Ísraelsk yfirvöld hafa viðurkennt ólögmæti einhverra hinna fjölmörku, ólöglegu landtökubyggða á Vesturbakkanum Mynd:
Áætlanir Ísraelsstjórnar um innlimun landssvæða á vesturbakka Jórdanár gætu stefnt friðarsamningnum við Jórdaníu í hættu. Hluti svæðisins er í Jórdandalnum við landamæri Jórdaníu.

Samkvæmt Óslóarsamkomulaginu frá 1993 skiptist vesturbakkinn í þrjú svæði. Tvö þeirra skyldu vera undir palestínsku forræði að stærstum hluta. Þriðja svæðinu ráða Ísraelsmenn en semja átti um að Palestínumenn fengju hluta þessa.

Samningar hafa ekki náðst og framundan er að Ísrealar hefji yfirtöku svæðisins 1. júlí næstkomandi. Bandaríkjamenn hafa lagt til helmingaskipti sem myndi aðskilja Palestínumenn og Ísreala sem þar búa.

Sérfræðingar í málefnum svæðisins telja að stjórnvöld í Jórdaníu þurfi að endurskoða samskipti sín við Ísrael verði af fyrirætlunum þeirra. Þær séu augljóst brot á friðarsamningi ríkjanna frá 1994.

Á hinn bóginn hafi Jórdanía ekki burði til að stöðva áætlanir Ísralsmanna. Ástæðan sé sú að Jórdaníumenn þurfi að reiða sig á fjárstuðning Bandaríkjamann sem þegar hafi samþykkt áform stjórnarinnar í Tel Aviv.

Kannanir sýna að Jórdanir eru almennt andvígir friðarsamningnum. Abdullah 2. Jórdaníukonungur sem hefur kallað samskipti ríkjanna Kaldan frið varar Ísrealsmenn við því að innlimunin gæti leitt til þungra átaka.

Forsætisráðherrann Omar al-Razzaz segir fyrirætlanir Ísraelsmanna kalla á endurskoðun allra samskipta ríkjanna. Almenningur á götum úti segir í samtölum við AFP fréttastofuna að ráðagerðir Ísraelsmanna væru ógnun við þjóð sem að hálfum hluta væri af palestínskum ættum.

Sérfræðingar kveða ýmsar leiðir opnar. Jórdanir gætu sagt friðarsamningnum upp í heild eða að hluta til, einkum þeim atriðum sem snúa að samvinnu á sviði öryggis- og njósna.

Eins gætu Jórdanir kallað sendiherra sinn í Tel Aviv heim og skipað ísrealska sendiherranum að hverfa á brott frá Amman.

Jórdanir verði, hvað sem öðru líður, að senda Ísraelum og Bandaríkjamönnum skýr skilaboð um að fyrirætlanirnar á vesturbakkanum gætu orðið til þess að friðarsamningnum yrði sagt upp.