Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ferðatakmarkanir rýmkaðar í Noregi og Danmörku

25.06.2020 - 15:02
epa08144899 Norwegian Prime Minister and leader of the Conservative Party, Erna Solberg, speaks at a media conference after the resignation of populist coallition partner Progress Party (Fremskrittspartiet) from Norway's four party government coalition, in Oslo, Norway, 20 January 2020. The move will cause Prime Minister Solberg to lose her parliamentary majority. The populist Progress Party's resignation came after a controversy over the repatriation of a so-called 'IS bride' and her children to Norway.  EPA-EFE/TERJE BENDIKSBY NORWAY OUT
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
Frá og með 15. júlí geta Norðmenn ferðast til landa Schengen-svæðisins og Evrópska efnahagssvæðisins án þess að þurfa að fara í sóttkví við heimkomu. Þetta sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, á blaðamannafundi norsku ríkisstjórnarinnar fyrr í dag. Norðmönnum er enn ráðið frá að fara til Svíþjóðar.

Áður hafði norska ríkisstjórnin gefið það út að ferðast mætti til Gotlands í Svíþjóð þar sem þar voru hlutfallslega færri smit en annars staðar í landinu, en nú hefur smitum fjölgað þar og Norðmönnum nú ráðið frá ferðalögum til allra hluta Svíþjóðar. 

Þetta er ákveðið af Landlæknisembætti Noregs. Til þess að ferðast megi til lands þurfa smit þar að hafa verið færri en 20 og færri en 0,5 innlagnir á gjörgæsludeildir á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikurnar. 

Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, sagði á blaðamannafundinum að aðstæður gætu breyst hratt. Fólk gæti ferðast til lands þangað sem engar hömlur væru á ferðalög, en það gæti breyst meðan á ferðalaginu stæði og það gæti þurft að fara í sóttkví við heimkomuna. Þeir Norðmenn, sem hygðu á ferðalög, þyrftu að vera við þessu búnir.

Hömlur á Dana rýmkaðar

Ferðatakmarkanir á Dana verða einnig rýmkaðar; frá og með laugardeginum verður hömlum á ferðir til 25 landa Evrópusambandsins aflétt, meðal þeirra eru Ítalía, Spánn og Frakkland þar sem útbreiðsla faraldursins hefur verið einna mest.

Enn er Dönum þó ráðið frá að ferðast til Rúmeníu, Portúgal, Bretlands, Írlands, Möltu og Svíþjóðar. 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir