Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Eldur í húsi í Vesturbænum

Mynd: Sigríður Hagalín / Sigríður Hagalín
Allt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kallað út að horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. Að sögn sjónarvotta eru tveir menn á efstu hæð hússins, en óvíst er hvort þeir hafi komist út. Stúlka sást kasta sér út um glugga þess niður í ruslagám. Lögregla og sjúkralið er á staðnum og víkingasveit Ríkislögreglustjóra var kölluð til. Enn logar eldur út um glugga.

Fjórir hafa verið fluttir á sjúkrahús. Að sögn sjónarvotts stökk karlmaður út um glugga hússins og vegfarandi færði ruslagám undir gluggann svo hann gæti lent í honum. Við stökkið lenti hann á syllu og slasaðist.

Skömmu eftir klukkan hálf fjögur var þrennt leitt út í lögreglubíl út úr húsinu, tveir karlar og ein kona. 

Mynd: Andri Yrkill Valsson / RÚV
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

Slökkvilið lokaði Vesturgötu þegar það kom á staðinn. Að sögn sjónarvotta hefur hópur fólks nú safnast saman við götulokunina og freistar þess að komast að húsinu sem brennur. Sjónarvottar segja að þar sé um að ræða aðstandendur þeirra sem í húsinu dvelja.

Íbúar í nágrenninu eru hvattir til þess að loka gluggum og hækka í ofnum til þess að halda reykjarlykt og sóti úti. Mikla reykjarlykt leggur yfir Reykjavík. Í útvarpshúsinu í Efstaleiti má finna megna lykt, nokkrum kílómetrum frá eldsvoðanum vestur í bæ. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
Mynd með færslu
Mynd: Andri Yrkill Valsson / RÚV
Bruni á Bergstaðastræti og Vesturgötu
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir