Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eldgos felldi Sesar

25.06.2020 - 17:00
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Rannsókn á borkjarna úr Grænlandsjökli bendir til þess að fall Júlíusar Sesars og lok lýðveldis í Róm og konungsveldis í Egyptalandi fyrir um 2064 árum megi að hluta rekja til atburðar sem varð hinu megin á jarðkringlunni á sama tíma. Kuldi og þurrkar ollu miklum og óvæntum uppskerubresti í Evrópu og í Norður Afríku á þessum tíma og nú er sökudólgurinn loks fundinn samkvæmt niðurstöðu rannsóknar sem fjallað er um í nýjasta tímariti bandarísku vísindaakademíunnar.

Það þarf varla að nefna það þessar vikurnar hversu náttúran getur minnt illilega á sig og haft mikil áhrif á okkur mannkynið, hvort sem það eru veirur eða jarðskjálftar. En það sem við höfum verið að upplífa síðustu mánuðina er þó lítilfjörlegt í samanburði við þann ursla sem stærstu eldgos sögunnar hafa valdið. 

Ekki bara dauða og hungursneið heldur hafa stærstu eldgos sögunnar hreinlega breytt mannkynssögunni.  Skaftáreldar árið 1783-4 og kuldi, loftlagsbreyting og hungursneyð í Evrópu í kjölfar þeirra eru sakaðir um að hafa átt þátt í að hrinda af stað frönsku byltingunni 5 árum síðar og nú hefur samkvæmt niðurstöðu rannsóknar sem birtist í tímariti Bandarísku vísindaakademíunnar í vikunni tekist að tengja lok lýðveldisins í Róm og konungsveldis í Egyptalandi fyrir 2064 árum við gríðarlegt eldgos hinu megin á hnettinum. Í nýrri rannsókn bandarískra og svissneskra vísindamanna á borkjarna úr Grænlandsjökli, þar sem lesa má jarðsögu allt að því 60 þúsund ár aftur í timann með því að bora sig 3 kílómetra ofan í ísinn telja þeir sig hafa fundið orsök þess kuldaskeiðs, sem gekk yfir um það leiti sem Júlíus Sesar var stunginn til bana í Róm 44 árum fyrir Krist, kuldaskeiðis sem stóð í nær áratug og olli hungursneyð og þurrkum á áhrifasvæðum Rómverja allt frá Evrópu til Norður-Afríku þar sem Kléópatra gat ekki lengur brauðfætt heri sína. Rannsóknin sýnir að meðalhiti hafi fallið um eða yfir 3 gráður á þessu tímabili.

En hvað olli?

Fyrr á þessu ári tókst vísindamönnum í loftlagsfræðum í Nevada í Bandaríkjunum og í Bern í Sviss að tengja ösku og gleragnir úr borkjarna af Grænlandsjökli við óvæntan sökudólg, við fingraför, ef svo má að orði komast, Okmok eldfjallsins á Aleuta eyjum, sem teygja sig vegna landreks eins og spor eftir saumavélanál út frá ströndu Alaska og út í Beringshaf. Ekki bara eldfjöllin heldur minna loftslagið, landslagið og fiskimiðin þar á Ísland enda hafa Íslendingar gert út frá eyjunum. Þetta nýuppgötvaða eldgos 45 árum fyrir Krist bætist í hóp á annars tugs risa eldgosa sem verið hafa að koma í ljós, sum þeirra jafnvel stærri  en Tambora gosið í Indónesíu 1815-1816 sem lengi hefur verið talið öflugasta eldgos sögunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Gígur eldfjallsins Okmok

Pólitískur órói og byltingar

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur er meðal þeirra sem rannsakað hafa Tambora gosið og önnur slík risagos. En hvaða áhrif hefði slíkt eldgos í dag? 

Það mundi hafa gífurleg áhrif á talsamband og allt í gegnum geiminn, í gegnum andrúmsloftið, á flugsamgöngur, það yrði að loka leiðum. Aðal áhrifin eru nátturulega í heiðhvolfinu, það er að segja það er mikið magn af vikri og ösku og brennisteini sem berst upp í heiðhvolfið og myndar svona slæðu um jörðina og þessi slæða hún endurkastar sólarljósi að nokkrum hluta frá jörðinni og kælir jörðina og þessi kæling er hnattræn. Hún mundi hafa mikil áhrif á veðurfar, valda hungursneyð, það mundi hafa í för með sér pólítískan óróa, byltingar, svo það mætti búast við að það yrðu mjög alvarlegar afleiðingar af slíku stórgosi eins og í Tambora. Og það er gos sem að kemur á svona eitt að meðaltali á 500 árum, einhvers staðar á jörðinni. Það er mikið í húfi í sambandi við þessi gos og menn hafa eiginlega bara horft fram hjá því af því að þetta er svo stórt að þeir bara fórna höndum. Sagt að þýðir ekkert að vera að velta þessu fyrir sér því við ráðum ekkert við þetta .“ segir Haraldur. Það séu ekki endilega þekktu eldfjöllin sem séu hættuleg því fylgst sé með þeim.

Höfundur pistilsins er Jón Björgvinsson.

„Hættulegu fjöllin eru þau sem eru lítið þekkt eða lítið rannsökuð. Eitt af vandamálunum í jarðfræðinni er að þekkja þessi fjöll og leita uppi þessi fjöll og það eru aðferðir sem eru til sem hægt er að beita við það, sem eru geislaaðferðir frá gervihnöttum sem geta mælt skorpuhreyfingar og sagt fyrir um hvar jörin er að bólgna upp áður en að gos af þessari stærðargráðu koma. Það þarf alþjóðaverkefni til að fylgtjast með slíku og það er ekki gert. Eins og við vitum með veðurfarsrannsóknir og veðurfarsbreytingar að alþjóðleg samvinna er alveg í molum og það er engin alþjóðleg samvinna af viti í eldfjallafræðinni.“

Þyrfti 400 júmbóþotur á dag

Áhrif eldgosa á veðurfar og kólnun jarðar er ekki nema um 40 ára gömul Nóblesverðlaunauppgötvun veður-  og háloftafræðingsins Pauls Crutzens. En gætu þau vísindi nýst eitthvað í baráttunni við hlýnun jarðar ? 

Paul Crutzen hann skrifaði grein um þetta og benti á að það væri hægt að stjórna hitafarinu á jörðinni. Honum gekk nú illa að fá þessa grein birta því vísindamenn töldu þetta vera sv mikla fjarstæðu. Það mætti ekki vera að fikta við móður náttúruna. Það var komið í ljós sko svona um 1980 og upp úr 1980 að það væri einn möguleiki að dæla brennisteini upp í heiðhvolf og það mundi þá draga úr sólarljósi sem næði til jarðarinnar til að vinna á móti hnattrænni hlýnun. Það er framkvæmanlegt en þú þarft þá svona 400 747 flugvélar fullar af brennisteini, sem að fljúga upp í heiðhvolf á hverjum degi og demba brennisteini upp í heiðhvof, því þetta rignir út náttúrulega,“ segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur.