Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áform Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum óviðunandi

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fjórir þingmenn hvetja utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands til að beita sér fyrir friðsamlegri lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna. Þeir krefjast þess að íslensk stjórnvöld komi því á framfæri við ísraelsk stjórnvöld að „áform þeirra gagnvart Palestínu séu óviðunandi“. 

Þingmennirnir fjórir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna; Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar; Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins; og Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sendu frá sér yfirlýsingu í dag. Þau lýsa „áhyggjum af áætlun nýrrar ríkisstjórnar Ísraels um innlimun á svæðum Palestínumanna og áhrifum þess á deilur og átök Ísraela og Palestínumanna“. 

Í yfirlýsingunni kemur fram áætlun Ísraelsmanna brjóti í bága við alþjóðalög og samþykktir og ályktanir Öryggisráðs Sameinu þjóðanna um samskipti þjóðanna tveggja. Yfirtaka Ísraels á Vesturbakkanum og áætlun ísraelskra stjórnvalda um byggingar nýrra landnemabyggða svifti Palestínumenn voninni um fullmótað fullveldi og lífvænlegt ríki og útiloki frið milli ríkjanna.  

Þingmennirnir minna á söguleg tengsl Íslands við ríkin tvö; „Við vorum fyrsta Vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis árið 2011 og erum aðilar að fríverslunarsamningi við Palestínu í gegnum EFTA. Við höfum einnig söguleg tengsl við Ísraelsríki frá stofnun þess árið 1948“. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV