Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja fresta ákvörðun um friðun Eyjafjarðar

24.06.2020 - 16:07
default
 Mynd: Rúv
Sveitastjórn Grýtubakkahrepps vill að ákvörðun um friðun Eyjafjarðar fyrir sjókvíaeldi verði frestað þar til reynsla annarra svæða verður þekkt.

Meirihluti fulltrúa í bæjarráði Akureyrar samþykkti bókun þar sem lagt var til við sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir fiskeldi í sjó. Ráðherra óskaði eftir umsögnum sveitarfélaga á svæðinu og óhætt að segja að skoðanir séu afar skiptar.

Fjallabyggð sendi inn umsögn í gær þar sem því er alfarið hafnað að teknar verði ákvarðanir um takmarkanir eða bann nema að undangengnum rannsóknum.

Í umsögn Grýtubakkahrepps sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar á mánudaginn fellst nokkurs konar millileikur. Segir í umsögninni að ekki séu forsendur til að taka endanlega ákvörðun af eða á um friðun á þessu stigi. Er hvatt til þess að ákvörðun verði frestað í fimm til tíu ár á meðan meiri reynsla fæst af eldi annars staðar við Ísland.

Á þeim tíma verði gert skipulag haf- og strandsvæða fyrir Eyjafjörð þar sem tekið verði tillit til sem flestra sjónarmiða og hagsmuna.