Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja að ríkið haldi utan um upplýsingar um vanskil

24.06.2020 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) gera alvarlegar athugasemdir um starfsleyfi Creditinfo. Athugasemdirnar koma fram í umsögn samtakanna til Persónuverndar.

Creditinfo er einkafyrirtæki sem heldur einu vanskilaskrá yfir einstaklinga hér á landi. Lánastofnanir nýta sér skrána við ákvarðanir um útlán. 

Neytendasamtökin og ASÍ telja að hið opinbera ætti að sjá um skráningu persónuupplýsinga af þessu tagi en ekki einkafyrirtæki. 

Vilja ríkari skyldur til fyrirtækisins

„Ef stjórnvöld, hins vegar, fela einkafyrirtæki slíka skráningu telja samtökin bæði rétt og eðlilegt að ríkar skyldur séu lagðar á fyrirtækið og að óheimil vinnsla þess á persónuupplýsingum skuli teljast brot á starfsleyfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum um persónuvernd. Telja samtökin mikilvægt að eftirlit með starfseminni sé virkt og tryggt að brot gegn starfsleyfi fái ekki að viðgangast í margar vikur, mánuði eða jafnvel ár án þess að brugðist sé við,“ segir í athugasemdum samtakanna. 

Neytendasamtökin og ASÍ gera að auki athugasemdir við önnur atriði. Meðal annars segja samtökin að starfsleyfinu ætti að fylgja krafa um að verða við bón stjórnvalda um tölfræðilegar upplýsinga um hvaðeina sem óskað er eftir að því gefnu að upplýsingarnar séu ekki persónugreinanlegar.

„Má nefna að enginn hefur t.a.m. aðgang að upplýsingum um umfang vanskila vegna smálána. En Creditinfo hefur sem dæmi margítrekað hafnað að veita yfirvöldum og félagasamtökum upplýsingar um umfang smálánastarfseminnar á Íslandi,“ segir í umsögninni. 

Segir óvíða jafn strangt regluverk og hér

Reynir Grétarsson, aðaleigandi Creditinfo, telur umsögn Neytendasamtakanna og ASÍ tilefnislausa. Hann segir að regluverk í kringum starfsemina sé óvíða jafnstrangt og hér á landi og að eftirlit sé mikið.  

Reynir segir að hann sé undrandi á því að samtökin telji heppilegra að hið opinbera sinni starfseminni. „Í öllum nágrannalöndunum sjá einkafyrirtæki um þetta,“ segir Reynir. Hann segir að hann viti ekki um mörg ríki sem hafa ekki falið einkaaðila til þess að halda utan um vanskil en nefnir Írak og Simbabve í því samhengi. „Það er í þessum löndum þar sem ríkið er að sjá um þetta, hugsanlega til þess að ríkið geti stjórnað þessum upplýsingum,“ segir hann. 

Reynir tekur sömuleiðis fyrir að Creditinfo neiti að veita stjórnvöldum upplýsingar. Hann segir einnig að ekkert smálánafyrirtæki sé í viðskiptum við fyrirtækið.

Reynir segir að Creditinfo hafi sent beiðni til Persónuverndar um úttekt á meintum brotum á starfsleyfi í tilefni af athugsemdum Neytendasamtakanna og ASÍ. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV