Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umfang mengunar enn óráðið

24.06.2020 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Enn er verið að meta umfang jarðvegsmengunar þar sem olíutankur við afgreiðslustöð N1 á Hofsósi lak. Rúmlega hálft ár er síðan fjölskylda þurfti að flýja að heiman vegna mengunarinnar.

Fjölskyldan við Suðurgötu 6 á Hofsósi neyddist til að flytja út af heimili sínu í byrjun desember vegna olíumengunar og hefur enn ekki getað snúið heim. Húsið hefur verið dæmt óíbúðarhæft. Veitingastaður við sömu götu er lokaður af sömu ástæðu og öðru hverju gýs upp bensínfnykur í verslun Kaupfélags Skagfirðinga.

Bensíntankurinn hefur verið fjarlægður og unnið hefur verið að jarðvegshreinsun. Í nýrri stöðuskýrslu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra má lesa út sjá að umfang mengunarinnar er enn óráðið. Tekin voru sýni bæði úr lofti og jarðvegi niður á allt að þriggja metra dýpi og Heilbrigðiseftirlitið íhugar að taka sýni með nokkrum borholum niður að þremur og hálfum metra til að fá skýrari mynd af umfangi mengunarinnar.

Við næstu skref hafa tveir möguleikar verið ræddir. Annars vegar að fjarlægja enn meiri jarðveg, alveg að húsunum líkt og íbúar hafa farið fram á, eða að bæta íblöndunarefnum í jarðveginn til að hraða niðurbroti á bensíninu. Ákvörðun verður tekin þegar niðurstaða fæst úr sýnatökunum og komin er skýrari mynd á umfang mengunarinnar.