Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þarf að fylgjast með þekktum skriðusvæðum á Norðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Jarðvísindamaður hjá Veðurstofunni segir viðbúið að meira hrynji úr fjöllum og klettabeltum á Norðurlandi verði fleiri stórir jarðskálftar. Þá þurfi að skoða nokkur þekkt skriðusvæði, þegar skjálftahrinan er gengin yfir, til að athuga hvort land hafi gengið til.

Skriður hafa fallið úr björgum við Eyjafjörð í stærstu skjálftum hrinunnar. Það hrundi úr Gjögrafjalli, Hvanndalabjargi og Ólafsfjarðarmúla og úr fjallshlíðum í Siglufirði og Ólafsfirði.

Óttast að stærri stykki geti losnað í jarðskjáftum

Sveinn Brynjólfsson, jarðvísindamaður hjá Veðurstofunni flaug, ásamt starfsmanni Náttúrufræðistofnunar, með þyrlu Landhelgisgæslunnar yfir allstórt landsvæði til að skoða aðstæður. „Og auðvitað óttast maður alltaf að það geti losnað um einhver stærri stykki í svona jarðskjálftum."

Gæti hrunið meira í fleiri stórum skjáftum

Þeir sáu víða merki um grjóthrun og margar smærri skriður og fyllur en engar stórar sprungur í bergi eða merki um að stór framhlaup væru í vændum. Sveinn segir þó viðbúið að það hrynji meira verði fleiri stórir skálftar. Ekkert þó sem ógnað geti byggð. „Það eru semsagt Ketubjörg vestur á Skaga og Drangey, það er oft grjóthrun þar. Sérstaklega ef skjálftarnir færast vestar þá eru þau svæði líklegri." Þá séu urðir til fjalla sem séu lausar í sér og geti farið af stað.

Vill skoða þekkt skriðusvæði þegar hrynunni er lokið

Æskilegt sé að skoða betur nokkur þekkt skriðusvæði, þegar hrinunni er lokið, til að athuga hvort land hafi gengið til. „Það eru svæði eins og Almenningar, vestan við Siglufjörð, þar sem vegurinn er alltaf á ferðinni. Fyrir ofan þar eru urðabingir og í kringum veginn. Og eins inn á fjöllunum milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, þar eru bingir af urð sem eru á hreyfingu. Auðvitað oft i vorleysingum, en það væri fróðlegt að sjá hvort þetta hafi farið mikið af stað."