Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Sá þessa nörda og ætlaði ekki að vera ein af þeim“

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV

„Sá þessa nörda og ætlaði ekki að vera ein af þeim“

24.06.2020 - 09:16

Höfundar

„Ég hefði verið fyrsti nemandinn til að deyja úr leiðindum í lögfræði. Það hefði verið mjög sorglegt,“ segir Guðríður Helgadóttir garðyrkjuséní sem kveðst hafa sætt sig við, eftir nokkurt þref við sjálfa sig, að vera „lúðalegur garðyrkjufræðingur“ enda slær hjarta hennar með gróðrinum. Hún verður á skjám landsmanna í sumar í Sumarlandanum sem hóf göngu sína um helgina.

Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur, Gurrý í garðinum eins og hún er oft kölluð, viðurkennir að gangast að miklu leyti upp í ímynd hins lúðalega garðyrkjufræðings. „Þegar maður hugsar um garðyrkjumann sér maður fyrir sér einhvern sem er í gallabuxum sem eru moldugar á lærunum því þar þurrkar maður sér þegar maður hefur verið með hendurnar í moldinni. Miðað við veðráttu er gjarnan lopapeysa, stroffið er trosnað og olnbogar út. Hárið í óreiðu því maður hefur ekki komist í sturtu nýlega, það er svo brjálað að gera,“ segir hún og kannast við ástandið. „Svo er hann pínu skrýtinn því hann hugsar meira um plöntur en fólk. Ég tengi mikið við það.“

Tengir frekar við plöntur en fólk

Og þó garðyrkjan sé alltaf efst á blaði í hennar lífi kveðst hún hafa yndi af ýmsu fólki og segir að sér þyki það margt alveg dásamlegt.  En hún á samt erfitt með að muna nöfn, á mannverum það er að segja, en alls ekki gróðrinum. „Ég man hins vegar latnesk plöntuheiti fyrir allan peninginn. Ég var í veislu um daginn og ég lít um gluggann og segi: nei en fallegur taxus cuspidata,“ rifjar hún upp. „Fólk horfði á mig með meðaumkun í svipnum og ég ákvað að segja ekki mikið meira um þetta.“

Heimsfaraldur varð fólki hvatning til garðyrkju

Garðyrkja virðist vera í mikilli tísku um þessar mundir og landsmenn hafa fjölmennt í gróðrarstöðvar og blómabúðir síðustu vikur til að birgja sig upp af kryddjurtum, fræjum og sumarblómum. Gurrý telur áhugann að hluta til stafa af kórónuveirufaraldrinum. „Það gerist oft þegar samfélög verða fyrir áfalli þá leitar fólk í upprunann. Eftir hrunið sáum við gífurlegan áhuga á garðyrkjunni, þá held ég að fólk hafi áttað sig á að þessir garðyrkjunördar voru að gera gagn og þeir höfðu þekkingu sem nýtist samfélaginu mikið,“ segir hún. „Þegar við komum úr kreppuástandinu varð ungt fólk svo meðvitað um umhverfismál. Þá var það kannski hugsunin að það er umhverfisvænna að rækta sitt eigið grænmeti. Þessi hugsun styrkist. Ennfremur bregði sumir á það ráð að rækta matinn til að drýgja tekjurnar.“ Að sama skapi má segja að heimsfaraldurinn hafi á sinn hátt virkað hvetjandi fyrir garðyrkjuáhugafólk og þannig megi að hluta útskýra gífurlega fjölgun í þeim hópi. „Nördar í lopapeysum hafa verið á fullu allan sólarhringinn, plöntur eru rifnar út. Sumarblóm seljast eins og heitar lummur svo það er gífurleg vakning.“ Auk þess hafa til dæmis aldrei borist eins margar umsóknir í Garðyrkjuskólann og núna, og fagnar Gurrý því. 

Mynd: RÚV / RÚV
Gurrý og teymið í Sumarlandanum fer vítt um land í sumar

Þótti garðyrkja fyrir neðan sína virðingu

Það stóð þó ekki alltaf til að Gurrý legði fyrir sig garðyrkju. Áður en hún sætti sig við að vera með meðfædda græna fingur og ástríðu fyrir gróðri reyndi hún fyrir sér á ýmsum stöðum í háskólanum.

„Ég ætlaði aldrei í garðyrkju, það var alveg fyrir neðan mína virðingu. Ég sá bara þessa nörda og ætlaði ekki að vera ein af þeim.“ Hún prófaði til dæmis verkfræði og lögfræði en fann sig alls ekki. „Ég hefði verið fyrsti nemandinn til að deyja úr leiðindum í lögfræði svo það hefði verið mjög sorglegt.“

Hún ákvað að láta til leiðast og kynnast plöntunum betur og síðan hefur hún ekki litið um öxl. „Þetta var eins og trúarupplifun, ég var bara vá. Hér á ég heima,“ segist hún og kveðst fegin að hafa fundið sína hillu í lífinu og komið sér þar kyrfilega fyrir. 

„Heimur plantna er stórkostlegur“

Margir þekkja Gurrý úr sjónvarpinu enda var hún lengi vel á skjánum í þáttum á borð við Í garðinum með Gurrý þar sem hún veitti áhugasömum og lengra komnum góð ráð við garðavinnuna. Hún segist því vera vön því að fá spurningar frá ókunnugum um allt milli himins og jarðar sem tengist plönturækt, garðinum og kryddjurtum, hvar sem hún kemur. Hún veltir því fyrir sér hvort fólk af öllum stéttum glími við það sama. „Maður sem tengist systur minni er kvensjúkdómalæknir og ég velti fyrir mér hvort hann fái svona mikið af fagtengdum spurningum,“ segir hún glettin. „En já, fólk er alltaf að segja mér að það sé með plöntur og að sýna mér myndir. Auðvitað tekur maður þessu vel, kannski af því maður finnur til ábyrgðar að tala vel um fagið sitt og fræða fólk. Mér finnst brjálæðislega gaman að segja frá heimi plantna sem mér finnst stórkostlegur.“

Gurrý birtist aftur á sjónvarpsskjáum landsmanna í sumar. Hún er í teymi Sumarlandans sem fer um landið og kynnist fólki, áhugamálum þess og menningu um allt land. „Mér finnst þetta mjög spennandi og varð glöð þegar Gísli Einarsson hringdi í mig. Þetta er svona tilraun til að sýna hvað fólk er að gera heima í sumar, hvað er í gangi, hvaða viðburðir eru í boði og hvaða verkefni tekur fólk sér fyrir hendur. Við flökkum um landið og reynum að gera þessu góð skil um allt land.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Guðríði Helgadóttur í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Keðjusögin getur komið manni í form