Möguleiki á skruggum og skúradembum

24.06.2020 - 07:16
Mynd með færslu
 Mynd: Markus Spiske - Pexels
Útlit er fyrir að loftið yfir landinu verði óstöðugt í dag og segir Veðurstofan að háreist skúraský geti myndast með tilheyrandi skúradembum. Spár gera ráð fyrir að öflugustu skúrirnar verði á vestanverðu landinu eftir hádegi og þar verða mögulega eldingar eða haglél á stöku stað.

Í textaspá Veðurstofu Íslands kemur fram að skammt suður af landinu er 994 mb lægð sem þokast norður og grynnist heldur. Suðaustanátt er á landinu 8-13 metrar sekúndu í fyrstu austan til á landinu, en heldur hægari austlæg átt annars staðar.

Víða verða skúrir í dag og rigning á Suðursturlandi og Austfjörðum. Eftir hádegi verður lægðin komin upp á land og því breytileg átt, yfirleitt 3-8 metrar á sekúndu. Loftið er óstöðugt og því má búast við hellidembum, og er möguleiki á því að skúraklakkarnir verða nægilega háreistir til að valda hagli og eldingum. Hiti víða 11 til 17 stig yfir daginn.

Í kvöld verður lægðin komin norður fyrir land og snýst því í suðvestanátt og styttir upp. Fremur hæg suðlæg átt á morgun og svipaður hiti yfir daginn. Skýjað með köflum og dálitlar skúrir á víð og dreif, einkum inn til landsins.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi