
Makrílveiðar hefjast fyrr en á síðustu vertíð
Fyrsti makríllinn á vertíðinni kom til vinnslu í Vestmanneyjum 18. júní og þau fáu skip sem eru farin til makrílveiða hafa fengið ágætis afla. Veiðarnar hefjast fyrr en á síðustu vertíð, makríllinn gengur orðið fyrr inn í lögsöguna en áður og kvótinn meiri nú en í fyrra eða tæp 160 þúsund tonn.
„Það er mikið verkefni framundan“
„Þannig að það er mikið verkefni framundan,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. „Við höfum verið að sjá þá hegðun hjá makrílnum síðustu ár að hann er að fara fyrr út úr lögsögunni og yfir í Smuguna. Þannig að við erum að freista þess að byrja fyrr og ná að lengja vertíðina í þann endann af því að hún hefur verið að styttast í hinn endann síðustu ár.“
Þarf að ganga vel á meðan makríllinn er í landhelginni
Það sé mikilvægt að ná sem mestum afla á meðan fiskurinn er við landið. Makríll sem veiddur er í Smugunni að hausti sé verra hráefni til vinnslu en fiskur sem veiddur er hér í lögsögunni að sumri. Auðvitað sé svo löng sigling á miðin austur í haf. „Á síðasta ári endaði þetta mjög skyndilega í september þannig að við náðum ekki að veiða allan okkar kvóta. Og ég held að hlutirnir þurfi að ganga upp bæði veiðar og vinnsla og lógistíkin í kringum þetta þarf að ganga upp svo að vel takist til hjá okkur," segir hann.
Reikna með verðlækkun á mörkuðum
En það ríkir nokkur óvissa í sölumálum nú í upphafi vertíðar. Markaðir fyrir makríl eru laskaðir og reiknað er með verðlækkun frá því í fyrra. „Menn eru að spá 10-15 prósent lækkun í erlendri mynt frá síðasta ári. Það er bara ákveðin óvissa, heimurinn er náttúrulega ekkert kominn út úr þessu COVID-ástandi alls staðar og áhrifa þess gætir víða. Þannig að það er eiginlega ómögulegt um þetta að segja, en við reiknum með lækkun í markaði,“ segir Gunnþór.